Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef svo sem orðið var við þessa spurningu og svarið sem maður hefur einmitt heyrt frá þeim sem spyrja, ef maður varpar þeirri spurningu til baka, er alltaf: Eins mörgum og við getum, eins mörgum og við höfum rými fyrir. En við erum með þetta vandamál í fjölmörgum öðrum málaflokkum. Við hættum ekki að taka á móti sjúklingum þótt fjármagnið sé búið í heilbrigðiskerfinu. Það eru bara gerð fjáraukalög. Við hættum ekki að taka á móti fólki sem fer á örorku af því að þú mátt ekki verða öryrki fyrr en eftir áramót. Þetta er nákvæmlega sama staðan. Alþjóðasamningar og lögin hjá okkur eru um réttindi fólks til að fá þessa þjónustu. Það er verkefni okkar allra að koma til móts við það á mannsæmandi hátt.

Ég skil alveg að fólk á litla Íslandi sé hrætt við hinn stóra heim. Það eru svo margir þarna úti og svo margir á flótta. Hvað myndi gerast ef 10 eða 100.000 manns kæmu bara hingað á morgun? Það er að vísu ekki hægt því að við erum ekki með mörg flug hérna. En allt í lagi, bara til að klára þá hugsun til enda segjum þá að það kæmu hingað 100.000 manns í næsta mánuði. Það yrði náttúrlega allsherjarkrísa en lagalega séð yrðum við samt að sinna réttindum þessa fólks. Hvernig við myndum bregðast við hlýtur að vera með því annaðhvort eða hvort tveggja að búa til pláss, hvernig sem við förum að því, og/eða einmitt vinna með samstarfsþjóðum okkar með það hvernig á að dreifa því fólki sem er á flótta. Það vantar rosalega mikið í alþjóðlegu umræðuna. Við erum dálítið föst í því að gert var Dyflinnarsamkomulag o.s.frv. Það er bara búið að læsa sig dálítið í því alþjóðlega. Við þurfum, held ég, að (Forseti hringir.) koma að því samkomulagi aftur, af því að, eins og er talað um hérna, kerfið (Forseti hringir.) hefur breyst eða aðstæðurnar hafa þróast og allir þurfa að gera meira, ekki bara sumir.