Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:57]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu um þetta mál. Mig langaði að ræða hér aðeins ákvæðið um þjónustusviptinguna 30 dögum eftir lokaákvörðun. Nú hefur hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra af og til stigið fram í umræðum um útlendingamál og stillt sér upp sem sérstökum talsmanni mannúðar og mannréttinda og sagst ósammála hæstv. dómsmálaráðherra um hitt og þetta. En nú gerist það að dómsmálaráðherra leggur fram frumvarp þar sem m.a. er að finna ákvæði um málefni sem eru beinlínis á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðherra. Þá er ég að tala um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Hér leggur dómsmálaráðherra fram slíkt mál. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur ekki séð sér fært að taka þátt í umræðu um þetta mál og málið var tímasett þannig, að því er virðist, á dagskránni að hann getur ekki tekið þátt í umræðunni þótt hann sjálfur hafi haft uppi stór orð um þennan málaflokk í fjölmiðlum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða afleiðingar hann telur að þetta þjónustusviptingarákvæði kunni að hafa og sérstaklega með tilliti til stöðu sveitarfélaga. Þau eiga nú þegar í basli með að sinna lögbundinni þjónustu einmitt vegna vanfjármögnunar þessarar ríkisstjórnar, kerfislægrar og skipulagðrar vanfjármögnunarstefnu þar sem þessum verkefnum er velt yfir á sveitarstjórnarstigið án þess að fjármagn og tekjustofnar fylgi.