Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Enn og aftur, „déjà vu“, stöndum við hér og ræðum útlendingafrumvarp þessarar ríkisstjórnar í fimmta sinn. Og enn er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill ganga jafn hart fram gegna réttindum flóttamanna og þetta frumvarp ber vitni um. Mögulega er ekkert skrýtið að mér sé enn fyrirmunað að skilja það vegna þess að þau taka svo gott sem engan þátt í umræðunni, hvorki núna eða síðasta eða þar á undan, en kvarta svo yfir því að það vanti heildstæða stefnumótun í málaflokknum ef á þau er gengið. Þau leggja ekki í að fara í þessa heildstæðu stefnumótun en leggja hins vegar alltaf fram þetta mál sem skerðir verulega réttindi flóttafólks. Stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er að skerða verulega réttindi flóttafólks. Fyrir utan kannski Sjálfstæðisflokkinn sem kemur hingað alla jafna með sinn hræðsluáróður og hundaflautu og dylgjur í garð flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi þá hef ég ekki fengið að heyra hverjar eru ástæðurnar fyrir því að fólk sem tilheyrir stjórnmálahreyfingunni Vinstri grænum vilji henda fólki á götuna sem ekki er hægt að brottvísa, vilji meira að segja taka af því heilbrigðisþjónustu í neyð, vilji svipta það húsaskjóli um hávetur, vilji passa að það fái ekkert að borða. Hvers vegna? Í alvörunni, ég skil ekki hvers vegna. Það er að hluta til vegna þess að VG tekur svo gott sem engan þátt í þessari umræðu. Það var haldin ein ræða af hálfu þingmanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þegar þetta mál fór af stað í þetta skiptið og kannski einhver andsvör sem eru ekki lýsing á afstöðu út af fyrir sig. Ég held að einn þingmaður Framsóknarflokksins hafi haldið ræðu í þessu máli.

Mig langar í alvörunni að skilja hvers vegna þau hafa svona mikið á móti réttindum flóttafólks, hvað þau telja sig vinna með því að henda fólki út á götuna eða koma gjörsamlega í veg fyrir að það komi fram nýjar upplýsingar í máli flóttafólks sem á t.d. að vísa á götuna í Grikklandi, við erum búin að vísa þangað 18 börnum á síðasta ári þrátt fyrir gefin loforð um annað, og koma í veg fyrir endurupptöku mála þeirra þó að fram komi nýjar upplýsingar sem gætu breytt niðurstöðunni og leyft þeim að vera hér í öruggu skjóli. Hvers vegna vilja þau gera þetta? Ég skil það ekki. Ég vonast til að þau mæti hingað og sinni hlutverki sínu sem þingmenn og útskýri hvers vegna þau styðja þetta frumvarp sem með réttu er hægt að kalla ógeðsfrumvarp.

Hvers vegna telur hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sig yfir það hafinn að taka þátt í þessari umræðu? Af hverju er hann í útlöndum núna að tala um innflytjendamál við erlenda kollega sína þegar þessi umræða er í gangi hér? Í alvörunni talað, hvað er í gangi? Hefur þetta fólk engan áhuga á vinnunni sinni? Er hann ekki með málaflokk þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd undir sínu ráðuneyti? Er það að svipta þau allri þjónustu ef ekki er hægt að vísa þeim rakleiðis úr landi eftir synjun ekkert sem snertir hans ábyrgðartilfinningu eða finnst honum mikilvægara að spjalla við kollega sína erlendis um innflytjendamál? Augljóslega, hann er ekki hér. Hann var ekki heldur hér á þriðjudaginn þrátt fyrir að ítrekað hafi verið kallað eftir því. Í þeirri tíu tíma löngu umræðu sem átti sér stað á þriðjudaginn var ekki einn gluggi fyrir félags- og vinnumarkaðsráðherra til þess að koma hingað í þingið og útskýra afstöðu sína og hvers vegna hann vilji svipta fólk þjónustu sem ekki er hægt að vísa úr landi. Hver er ástæðan fyrir því að hann langar að vísa tugum ef ekki hundruðum inni í framtíðinni á götuna, ef það er ekki hægt að henda þeim úr landi? Hvers vegna styður hann það? Af hverju stendur hann á bak við þetta frumvarp? Eins og ég skil þetta er búið að samþykkja frumvarpið án fyrirvara úr þingflokki VG þannig að þau hljóta bara að vera góð með þetta, er það ekki? Ég er alla vega ekki búin að fá neinar aðrar skýringar, ég er ekki búin að heyra ræður sem segja annað vegna þess að það hefur enginn tekið þátt í þessari umræðu, ekki einu sinni maðurinn sem fer fyrir þessum málaflokki af hálfu VG, þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Hefur hann ekkert um það að segja að svipta eigi fólk rétti á lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu ef ekki er hægt að vísa því úr landi? Flott.

Þessi salur er fyrir okkur hér til að segja frá afstöðu okkar. Mín afstaða er algerlega skýr, ég hafna þessu frumvarpi í öllum atriðum. Eina atriðið sem eitthvert vit er í er til í öðru frumvarpi, við þurfum ekki að láta stilla okkur upp við vegg hérna, við getum hafnað þessu frumvarp og við getum samþykkt frumvarp sem leiðir til þess að fólk sem fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum fær að sama skapi atvinnuleyfi. Það er eitthvað sem við erum öll sammála um að gera. Það sem við erum ekki sammála um að gera og það sem ég er algjörlega ósammála að eigi að gera er að reyna af fremsta megni að gera líf umsækjenda um alþjóðlega vernd eins óbærilegt og mögulegt er hér á landi til þess að þeir hunskist eitthvert annað því að við séum ekki tilbúin að axla okkar ábyrgð í hinu alþjóðlega samfélagi þar sem fólkið sem kemur til okkar er pínulítill hluti af þeim sem eru á flótta í heiminum.

Áðan var talað um að við séum sífellt spurð um hversu marga við viljum fá, hversu margir séu of mikið, sem er svona ræðubragð til að fá okkur til að fara í vörn og segja að við séum ekki tilbúin að svara því. Er ekki búið að lýsa því yfir að við þurfum a.m.k. 10.000–15.000 manneskjur bara á næstu mánuðum og árum til þess að við getum viðhaldið okkar lífsstandard? Er það ekki ágætisbyrjun? Eigum við að byrja þar og sjá hvað setur? Eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson kom inn á áðan mætti spyrja á móti hversu fáum við viljum taka á móti. Hvaða kvóta ætlum við að setja á flóttamenn fyrst fólk hefur svona miklar áhyggjur af þessum fjölda? Hversu fáa vilja VG fá hingað til lands? Ég væri til í að vita það en þau eru ekki til í að segja okkur það. Þau eru heldur ekki til í að segja okkur hvað það er við þetta frumvarp sem þeim finnst svo gott að það verði að fara hér í gegn, að það verði að reyna í fimmta skipti að sóa tíma okkar allra við að reyna að koma þessu ógeðsfrumvarpi í gegn. Hvað er það sem er svona frábært við það, fyrir utan þetta eina atriði sem ég er búin að minnast á að hægt er að afgreiða öðruvísi og á miklu skilvirkari hátt? Er eitthvað í þessu frumvarpi, fyrir utan þetta eina atriði með atvinnuleyfin, sem fólki í VG og fólki í Framsókn finnst hafa jákvæð áhrif á réttindi flóttafólks á Íslandi? Ég veit það ekki af því að þau eru ekki hérna og taka ekki þátt í umræðunni, þeim er greinilega alveg sama um hana.

Ég veit að ég stend hér fyrir framan eina þingmanninn sem hefur farið í ræðu, hæstv. forseta, í þessu máli en það breytir því ekki að það er eini þingmaðurinn í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sem hefur farið í ræðu um þetta mál. Og einn þingmaður Framsóknar. Ég væri til í að heyra hvað við þetta mál er jákvætt fyrir réttindi flóttafólks, fyrir utan ákvæðið um atvinnuleyfi sem ég er búin að fara margoft yfir. Ég vona að ég þurfi ekki að endurtaka það einu sinni enn að hægt er að afgreiða það á annan hátt, það tilheyrir ekki einu sinni málaflokki hæstv. dómsmálaráðherra. Hvað er það sem er svona frábært fyrir flóttafólk í greinum þessa frumvarps?

Ég veit alveg hvað Sjálfstæðisflokknum finnst. Það er alveg skýrt að þau vilja stöðva einhverja flóðbylgju sem þau eru að reyna að magna upp í huga almennings, flóðbylgju glæpamanna og fólks sem misnotar kerfið og kaupir vegabréf og er bara almennt ekki nógu gott fólk, til þess að gera rými fyrir eina litla kassann sem á rétt á vernd samkvæmt þeirra siðferðisviðmiði. Svo eru þau alltaf að tala um að megnið af þessu fólki sé nú bara í leit að betra lífi og þurfi ekki vernd og eitthvað svoleiðis og fara að tala um að það þurfi að gera það auðveldara fyrir það að komast hingað eftir löglegum leiðum í staðinn fyrir að misnota hælisleitendakerfið. En þau hafa haft getu til þess að gera þetta í áratugi, að auðvelda fólki að koma hingað án þess að sækja um hæli, og hafa aldrei gert það. Þetta er svo sem alltaf sama afvegaleiðingin. Þetta fer alltaf í hring og er mjög þreytandi eins og ég hef komið inn á áður í umræðu um mál hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur. Mjög þreytandi hringrás.

Við vitum að þetta frumvarp mun hafa mjög neikvæð áhrif á réttindi flóttafólks á Íslandi. Þetta hefur t.d. Rauði krossinn bent á í ítarlegum umsögnum hvert árið á fætur öðru sem þetta mál er lagt fram. Þessi stofnun var þar til fyrir mjög skömmu síðan málsvari flóttafólks á Íslandi en var sagt upp samningi af núverandi hæstv. dómsmálaráðherra, nokkurn veginn fyrirvaralaust. Í umsögnum þeirra er mjög skýrt hvernig þetta frumvarp mun ekki ná tilætluðum árangri, sem er að auka skilvirkni í kerfinu, heldur einungis skerða réttindi flóttafólks á margvíslegan hátt. Það sem þetta frumvarp gerir líka, eins og ég kom inn á í andsvari við hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur áðan, er að það lögfestir ákveðna framkvæmd sem stjórnvöld hafa verið gerð afturreka með, eins og t.d. að henda 21 eða 22 flóttamönnum á götuna fyrir ári síðan vegna þess að stjórnvöld litu svo á að þeir neituðu að aðstoða við sína eigin brottvísun. Þá var þeim bara hent á götuna. Svo þegar kom í ljós að það vantaði lagaheimild fyrir því að henda þeim á götuna um hávetur þá er planið er setja hér inn þá lagaheimild. Ég er enn að reyna að skilja hvers vegna VG finnst það góð hugmynd að setja inn lagaheimild til þess að geta hent fólki á götuna. Ég skil það ekki. Ég á eftir að heyra rökin fyrir því hvers vegna það er góð hugmynd eða hvað þeim fannst um það að dómsmálaráðherra hafi varið þá ákvörðun Útlendingastofnunar að henda 21 eða 22 flóttamönnum á götuna um hávetur í fyrra, meira að segja eftir að það var dæmt ólöglegt þá sagði enginn múkk um það. Æ, jæja, best að við veitum þeim húsaskjól aftur fyrst þetta var nú ólöglegt hjá okkur. Best að setja það inn í lögin að við megum henda þeim á götuna framvegis og svipta þau mat og lágmarksheilbrigðisþjónustu. Höfum það tryggilega í lögum þannig að við getum gert það löglega að henda fólki á götuna. Hvers vegna er það góð hugmynd? Ég skil það ekki. Ég skil ekki af hverju við viljum henda fólki á götuna, ég bara næ því ekki, sér í lagi á Íslandi þar sem það getur verið töluvert hættulegt að lenda á götunni. Ekki að það sé eitthvað skárra að henda fólki á götuna í Grikklandi, en það er það sem þessu frumvarpi er ætlað að auðvelda. Ég skil heldur ekki af hverju það er góð hugmynd eða hvers vegna fólk styður það, sama í hvaða flokki það er. Það kemur mér kannski minna á óvart þegar það kemur frá Sjálfstæðisflokknum en þegar það er samþykkt fyrirvaralaust af þingflokki Vinstri grænna. Ég er aðeins meira hissa á því.

Ég hef margoft rakið efnisatriði þessa frumvarps, það er ekki breytt í neinum miklum atriðum í raun, eftir allar þessar tilraunir sem það hefur farið í gegnum. Þetta er allt til þess að lögfesta ólögmæta framkvæmd stjórnvalda fram að þessu, gera það löglegt sem hingað til hefur verið talið ólöglegt, eins og það að henda fólki á götuna eða fletta upp persónuupplýsingum um það eða vísa þeim rakleiðis beint á götuna til Grikklands. Og ég skil ekki enn af hverju það er góð hugmynd.