Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er mat sérfræðinga sem vinna í þessum málaflokki að það sé stór hópur af fólki sem getur ekki aflað t.d. þessara ferðaskilríkja eða kemur frá ríkjum sem er einfaldlega ekki hægt að senda það til baka til vegna þess að það eru engir samningar á milli ríkjanna. Það er ekki eins og Ísland geti bara tekið sig til og hent fólki upp í flugvél og skilað því þangað sem það vill skila því. Þetta virkar ekki þannig. Það þurfa að vera í gildi samningar eins og eru t.d. um endursendingar á Schengen-svæðinu eða sem sagt þessi svæði sem Dublin-samkomulagið nær yfir. Með þessu frumvarpi er einhvern veginn verið að reyna að búa til einhverja lagaheimild fyrir því að senda fólk meira að segja til landa þar sem það hefur kannski dvalið í einhvern tíma en hefur engin réttindi og ekki ríkisfang þaðan heldur. Það er ekki eins og það sé bara: Ja, heyrðu, þú kemur hingað frá Venesúela en þú ert búinn að dvelja í alveg í fimm ár í Kólumbíu og svo kemurðu hingað svo við ætlum bara senda þig til Kólumbíu. Þú hefur væntanlega einhver tengsl þar. Það er í raun það sem er verið að reyna að leggja til með þessu. En það er algjör ógerningur að fara í þetta verkefni vegna þess að það eru engir samningar milli Íslands og Kólumbíu um að við getum tekið nokkra flóttamenn frá Venesúela og skilað þeim aftur til Kólumbíu vegna þess að þeir eru ekki með kólumbískt ríkisfang. Þeir hafa ekkert endilega einhver réttindi til að búa þar eða status til þess að nýta sér til framfærslu. Og ég er ekki viss um hvort það myndi einu sinni ganga upp að Ísland myndi ákveða einhliða að senda einhvern þangað eða til annarra ríkja sem íslensk stjórnvöld virðast ætla að reyna að senda fólk til. Það mun ekki ganga upp. Það er óframkvæmanlegt sem þýðir að meira að segja þótt öll þessi skilyrði séu uppfyllt, sem hv. þingmaður er að vísa í, þá er enginn staður til að senda fólkið á og við ætlum að hegna því fyrir að eiga hvergi heima með því að henda því á götuna og tryggja að svo verði áfram.