Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:26]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Þetta er eitt af þeim efnisatriðum frumvarpsins sem stendur aðeins í mér og ég vænti þess að þegar málið fer til nefndar verði tekin svolítið djúp umræða um það hversu langt ákvæðið gangi og hvort það verndi tiltekinn hóp, sem til að mynda var rætt svolítið um í ferð allsherjar- og menntamálanefndar til Danmerkur, sem er þar í brottvísunarbúðum svo mánuðum og árum skiptir, einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að vísa fólkinu úr landinu, eins og hv. þingmaður fór yfir hér áðan að sé stundum staðan.

En það er annað, af því að hv. þingmaður var ekki bara að tala um efnisatriði frumvarpsins heldur líka kannski pólitísku stöðuna eins og hún er núna á þinginu, og þetta er eitt af því sem ég hef svolítið klórað mér í kollinum yfir varðandi framlagningu þessa máls. Það er nefnilega svo einkennilegt að eini þingflokkurin sem a.m.k. opinberlega hefur gert einhvern fyrirvara við málið er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sem samt er sagður vera algerlega sammála dómsmálaráðherranum í einu og öllu en er samt eini flokkurinn sem setur fyrirvara við frumvarp dómsmálaráðherra. Það er nú eitt. Síðan hefur komið í ljós í umræðum um málið, og ekki ætlar maður að hegna þeim stjórnarliðum sem hafa þó sannarlega tekið þátt, það hefur komið fram hjá a.m.k. tveimur þingmönnum VG, ætla ég leyfa mér að segja, að þeir eru ekki tilbúnir til að lýsa því yfir að þeir styðji meginatriði þessa frumvarps. Ég gat a.m.k. ekki lesið þannig í orð þeirra og ég ætla svo sem ekkert heldur að gera þá kröfu til þess að þeir endilega að geri það. En þetta er samt sem áður partur af einhverjum pólitískum veruleika. Við erum hérna með frumvarp sem maður hefur bara mjög miklar efasemdir um að njóti stuðnings allrar ríkisstjórnarinnar. Við höfum ekki fengið að heyra enn þá (Forseti hringir.) hvað hæstv. ráðherrar VG hafa um málið að segja um þetta tiltekna frumvarp, (Forseti hringir.) en þeir hafa þó a.m.k. sumir hverjir viðrað ákveðnar efasemdir um það að hæstv. dómsmálaráðherra sé almennt á réttri leið í þessum málaflokki.

Þannig að mig langaði að spyrja hv. þingmann: Hvernig telur þingmaðurinn (Forseti hringir.) að staðan sé innan ríkisstjórnarflokkanna þegar kemur að raunverulegum stuðningi við þetta mál? Er verið að ætlast (Forseti hringir.) til þess af hálfu VG að það sé stjórnarandstaðan sem stoppi þetta (Forseti hringir.) vegna þess að þau treysta sér ekki sjálf til að gera það í samstarfinu?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutíma.)