Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hefur auðvitað stöðvað þetta mál fjórum sinnum þannig að kannski finnst þingmönnum og ráðherrum VG ekki þurfa að gera neitt, vegna þess að stjórnarandstaðan sjái um þetta aftur. En mín upplifun hefur verið sú hingað til — þetta mál er alltaf lagt fram, núna í fimmta sinn, og það er svona misjafnt hvað það er mikil áhersla lögð á að reyna að klára þetta en það er aldrei í sérstökum forgangi. Það breytir því ekki að það er lagt fram á hverjum vetri og í hvert skipti sem það er lagt fram, samþykkt út úr ríkisstjórn, samþykkt af öllum þingflokkum stjórnarflokkanna, þá er það ákveðin hótun við flóttafólk á Íslandi. Það fer af stað ákveðin umræða sem er ógnvekjandi gagnvart flóttafólki og innflytjendum á Íslandi. Það fylgir þessu alltaf. Þannig að bara framlagningin og að þetta sé samþykkt, að þetta sé ríkisstjórnarmál og það fari á dagskrá og til nefndar og allt það sem því fylgir, þetta er viðvarandi ógn sem þessi hópur býr við: Það stendur til að skerða ykkar réttindi og við stöndum öll hérna á bak við það. Svo er hægt að fara í einhverjar bollaleggingar um hversu sterkur sá stuðningur er. En ég sit svo sem ekki inni í þeim herbergjum þar sem það er rætt. En það sendir skýr skilaboð að samþykkja svona mál út úr ríkisstjórn aftur og aftur og það sendir mjög skýr skilaboð að samþykkja þau fyrirvaralaust út úr þingflokknum, burt séð frá því hvað einstaka þingmenn kunna svo að segja um sína afstöðu, vegna þess að á endanum, ef þetta fer í þingsalinn, þá verða væntanlega mjög sterkar væntingar til þess að viðkomandi þingmenn standi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar. (ArnG: Og svo á heldur ekkert að ræða þetta.)