Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

jöfn tækifæri til afreka.

291. mál
[16:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég er þakklát fyrir þessa mikilvægu umræðu. Staðan er einfaldlega sú að því meira sem við vitum um mikilvægi íþróttastarfs fyrir ungmenni okkar, líkamlega heilsu, andlega heilsu, velgengni í framtíðinni, því meira hrópandi verður sú staðreynd að þetta stendur ekki öllum ungmennum til boða. Hinsegin börn eru einfaldlega undanskilin eins og staðan hefur verið. Þess vegna er mjög gott að heyra, bæði í máli hv. þingmanns og frummælanda og hæstv. ráðherra, að verið er að vinna í þessum málum.

Mig langar að nota tækifærið og minna á þingsályktunartillögu sem ég lagði fram og var samþykkt hér á þingi fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári, eða vorið 2021, um að Alþingi fæli ráðherra íþróttamála að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Það er náttúrlega algerlega dauðafæri að nota þessa vinnu — ég geng út frá því að stefnan sé ekki tilbúin, hún hefur ekki verið birt eins og gera átti, og ég hef reyndar sent inn skriflega fyrirspurn til ráðherra varðandi málið — og innlima þetta. (Forseti hringir.) Eins mikilvægt og það er að hafa sérfræðinga með í ráðum er líka kominn tími til að láta stefnuna ná yfir okkur öll.