Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

eftirlit með menntun, aðbúnaði og réttindum barna í skólum.

293. mál
[17:02]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja hér í upphafi strax; já við fyrstu spurningu þar sem velt er upp hvernig eftirliti sé háttað með leik-, grunn- og framhaldsskólum. Það er ráðuneytið sem fer með eftirlitshlutverk með starfsemi þessara skólastiga. Það er rammað inn í lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Hvað varðar starfsemi hins vegar leik- og grunnskóla, eins og hv. þingmaður kom inn á, þá er hún á ábyrgð sveitarfélaganna og þar fer ráðuneytið bara með almennt yfirstjórnar- og eftirlitshlutverk og fylgist með því að sveitarfélögin uppfylli skyldur sínar en hins vegar eru framhaldsskólarnir ríkisstofnanir og heyra beint undir ráðuneytið og það er nærtækara, eða það er nær okkur. Það eru sambærileg ákvæði í öllum lögunum þremur um markmið með mati og eftirliti á þessum skólastigum og þau eru auðvitað almennt orðuð, eins og að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, tryggja starfsemi skólans í samræmi við ákveðnar laga- og reglugerðir og námskrár, tryggja gæði skólastarfs og að réttindi nemenda séu virt o.s.frv.

Í núverandi lagaumgjörð hefur ráðuneytið falið Menntamálastofnun að annast söfnun, greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald. Það er bara liður í ytra mati á gæðum skólastarfs ásamt úttektum, alþjóðlegum samanburðarrannsóknum og fleira. Það er sem sagt Menntamálastofnun sem framkvæmir ytra mat á skóla á grundvelli opinberra gæðaviðmiða þar sem lagt er mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum þegar niðurstöðuskýrslur liggja fyrir.

Þá erum við komin kannski að annarri spurningunni: Hvernig hefur ráðuneytið brugðist við þegar kemur fram að þessum hlutum er ábótavant? Þegar niðurstöðuskýrslur liggja fyrir er kallað eftir umbótaáætlun frá viðkomandi skóla og rekstraraðila þeirra. Menntamálastofnun fylgir þessu eftir gagnvart sveitarfélögum og leik- og grunnskólum í núverandi lagaumgjörð en við erum að undirbúa breytingar á þessu. Menntamálastofnun upplýsir ráðuneytið um niðurstöður ytra mats og framgang umbóta með reglulegum hætti en ráðuneytið sinnir hins vegar sjálft eftirfylgni með umbótum í kjölfar úttektar á framhaldsskólum. Þegar um er að ræða sjálfstæða gagnaöflun á vegum ráðuneytisins er gerð áætlun um umbætur. Niðurstöðum, ábyrgð og umboði er ýmist beint til ríkis eða rekstraraðila skóla, eftir atvikum, kennara stofnana eða annarra þar sem við á.

Ef eftirlit og ytra mat með starfsemi skóla bendir til þess að þörf sé á umbótum er óskað eftir umbótaáætlun frá sveitarstjórn í tilvikum leik- og grunnskóla en skólameistara viðkomandi framhaldsskóla þar sem fram kemur hvernig brugðist verði við niðurstöðu matsins. Tímafrestir eru síðan ákveðnir og jafnframt hvernig áætluninni verður fylgt eftir.

Umbótunum er síðan fylgt eftir skriflega þangað til mat er lagt á að unnið hafi verið að öllum nauðsynlegum umbótum. Allt eru þetta stjórnsýslubréf og stjórnsýsluákvarðanir sem send eru á milli þannig að þetta er ekki mjög svona „effektíf“ skoðun, skulum við segja, ekki eins og við eigum í dag. Í einstaka tilvikum hafa skólar og sveitarfélög ekki framfylgt umbótum svo ásættanlegt er, eða ekki svarað beiðnum ráðuneytis um upplýsingar. Þegar þetta gerist þá gerir ráðuneytið það sem það getur gert, það getur tekið málið upp við innviðaráðuneyti sem fer með stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum þegar kemur að leik- og grunnskólunum vegna þess að mennta- og barnamálaráðuneyti hefur ekki lagaheimildir til þess að beita viðurlögum gagnvart sveitarfélögum eða öðrum rekstraraðilum leik- og grunnskóla ef þeir bæta ekki úr aðbúnaði í skólum eða aðbúnaði hefur verið ábótavant. En slíkar heimildir hefur innviðaráðuneytið á grundvelli sveitarstjórnarlaga.

Svo er spurt að því hvort ráðuneytið hafi gripið til ráðstafana til að tryggja að skólahúsnæði barna sé heilsusamlegt, til að mynda laust við myglu og að brunavarnir séu fullnægjandi. Í leik- og grunnskóla er það fyrst og fremst á ábyrgð sveitarfélaga og rekstraraðila að skólahúsnæði barna sé heilsusamlegt og uppfylli þar til gerðar kröfur heilbrigðisyfirvalda og kröfur um brunavarnir. Þar verður ráðuneytið að fara eftir því stjórnsýsluferli sem ég rakti hér áðan, það er í gegnum innviðaráðuneytið sem fer með eftirlit, bæði með brunavörnum og mannvirkjum. Ráðuneytið hefur hins vegar gert athugasemdir við ófullnægjandi húsnæði skóla, annað en myglu og brunavarnir, svo sem vegna ófullnægjandi aðstöðu fyrir verklegar greinar í grunnskólum og varðandi öryggi barna á leið sinni í íþrótta- og sundtíma, svo dæmi séu tekin. En stjórnsýslulega getum við ekki tekið á því vegna þess að við höfum ekki lagaheimildir til þess nema beina því til innviðaráðuneytisins.

En varðandi framhaldsskólana þá er yfirleitt gert ráð fyrir sérstöku rekstrarframlagi hjá framhaldsskólunum og að þeir geti sinnt viðhaldi húsnæðis en það hafa komið upp tilvik þegar ráðuneytið hefur þurft að styðja enn frekar við skóla ef upp hefur komið mygla eða öðru viðhaldi hefur verið ábótavant. Þessi dæmi hafa komið upp og við höfum takmarkaðar heimildir til að grípa inn í gagnvart leik- og grunnskólastiginu aðrar en þær að snúa okkur til innviðaráðuneytis (Forseti hringir.) sem hefur á hendi stjórnsýslu gagnvart sveitarfélögunum.