Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Tíu ára vinkona mín, Elín Katrín Þórlindsdóttir, var nýlega í foreldraviðtali í skólanum. Þegar hún var spurð hvort hún vildi koma einhverju á framfæri benti hún á að skólinn byrjaði allt of snemma á morgnana. Hún lagði til að skólabyrjun yrði seinkað því að öll börn ættu rétt á svefni. Kennarinn hennar taldi að hún gæti ekki orðið við þessari umkvörtun og lagði til að Elín talaði við menntamálaráðherra. Elín hugsaði sig um og sagði svo: Þetta er allt í lagi, ég á vini á Alþingi. Og það á hún, vini sem eru henni hjartanlega sammála.

Það getur verið þrautinni þyngri að draga börn, hvað þá unglinga fram úr eldsnemma til að gefa þeim morgunmat og henda þeim svo út í náttmyrkrið sem er alltumlykjandi á Íslandi meiri hluta ársins. Það sitja ekki öll grunnskólabörn við sama borð þegar kemur að upphafi skóladagsins. Þessi næturvaktartímasetning á grunnskólastarfi er svo gott sem meitluð í stein af einhverjum sökum og því miður ekki í höndum þingsins. En ég tek þetta samt upp hér af því að mér finnst þetta mikilvægt mál og ég veit að það finnst fleirum. Lítill hluti nemenda í grunnskólunum nær viðmiðum um ráðlagða svefnlengd samkvæmt rannsóknum og svefn hefur mikil áhrif á minni og námsgetu. Svefn hefur líka áhrif á geðheilsu, líkamlegt ástand og einbeitingu. Lausnin er ekki svo einföld að fara bara fyrr að sofa því að eitt af því sem gerist á kynþroskaskeiðinu er að dægursveiflan færist til.

Væri ekki gott ef fyrirkomulag dagskrár í grunnskólum miðaðist við nemendurna og við seinkuðum því upphafi skóladags hjá þeim? Vonandi heyrir þetta einhver sem hefur raunveruleg áhrif á það.