Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Eru mannréttindi brotin á öldruðu fólki á hjúkrunarheimilum hér á landi? Já, það segir Sigrún Huld Þorgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur í Silfrinu á RÚV, og þá einnig að engar heimildir séu í lögum til að læsa fólk inni eða binda það niður, eins og tíðkast á heilabilunardeildum. Þá fann hún að því að framkvæmd þjónustunnar væri í höndum bæði ríkis og sveitarfélaga og það valdi óskilvirkni. Þá sagði hún einnig að fólk á lokuðum heilabilunardeildum hjúkrunarheimila nyti minni réttinda en fólk í fangelsum og á réttargeðdeildum. Það er verið að læsa inni aldrað fólk sem hefur tapað vitrænni færni og það í trássi við lög og rétt þess og þá er einnig verið að binda fólk og gefa því geðlyf án þess að spyrja það. 5% þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum eru fjötraðir daglega. 25% fá sterk geðlyf í öðrum tilfellum en mælt er með, sem kom einnig fram í þættinum.

Komið er fram við aldrað fólk eins og þriðja flokks þegna hér á landi og þegar það þarf að leggjast inn á sjúkrahús er það orðið að fráflæðisvanda. Fjárhagslegt sjálfstæði þess er skert illa og það fer inn á hjúkrunarheimili og vasapeningum er skammtað til þeirra upp á 86.000 kr. á mánuði. Allt Covid-tímabilið var aldraða fólkið á almannatryggingabótum skilið eftir, það fékk ekki krónu í uppbót, skatta- og skerðingarlaust. Nei, eina hækkun þeirra frá ríkisstjórninni var núna í sumar upp á heil 3%, sem skilar sér í flestum tilfellum 80% til baka í ríkiskassann. Aldraðir mega bara eiga óskertar 25.000 kr. af lífeyrisgreiðslum sínum áður en skerðing upp á 45% hefst og veldur samanlagt næstum því 80% sköttum og skerðingum. Þetta óskiljanlega, andlega, líkamlega og fjárhagslega ofbeldi gagnvart öldruðu fólki bitnar verst á konum. Kona sem fær 250.000 kr. út úr almannatryggingum í dag og fær 50.000 kr. úr lífeyrissjóði — það skilar henni 10.000 kr. Fjárhagslega ofbeldið er algjört. Sjaldan launa ríkisstjórnarliðar ofeldið.