153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar til að rifja aðeins upp, af því að það er alveg alvarlegt mál þegar ekki er verið að fara eftir þessum reglum sérstaklega, að grófasta dæmið sem ég hef séð um þetta var þegar ég var á nefndarfundi og eitt af okkar þingmannamálum var á dagskrá undir lok þings. Þá var von á gestum og það var svona almennur skilningur að málið yrði afgreitt úr nefnd að lokinni þeirri gestakomu. En formaður nefndarinnar þá sagði einfaldlega bara — hann hringdi í þá um morguninn og gestirnir voru afboðaðir. Þeir mættu ekki og þar af leiðandi var málið ekki afgreitt úr nefnd. Þetta er svona dæmi um það hvernig meiri hlutinn fer oft með valdið hérna. Þegar það er ekki farið eftir reglum þá er jafnvel bara svínað fram hjá þeim á svona grófan máta, bara: Nei, ég hringi bara um morguninn, gestirnir geta bara sleppt því að mæta í þingmannamál stjórnarandstöðunnar. Við þurfum ekkert á ykkur að halda. Við ætlum hvort eð er að henda þessu í ruslið.

Við erum með reglur hérna af ástæðu. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvæg ástæða fyrir því að við höfum reglur (Forseti hringir.) um að þrír þingmenn geti kallað eftir gestum og upplýsingum, (Forseti hringir.) til þess að reyna að komast hjá því að það sé farið svona með valdið hérna á þingi.