Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hv. þm. Birgi Þórarinssyni finnst það óboðlegur málflutningur hjá mér að vilja ekki byggja umræður í þingsal á tveggja manna tali í síma milli Reykjavíkur og Aþenu. Hafi orð einhvers starfsmanns Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (BirgÞ: Framkvæmdastjórinn.) — hafi framkvæmdastjóri eða starfsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna látið þingmanninn vita að allt væri í himnalagi í stöðu flóttamanna (Gripið fram í.) á götum Aþenu þá getur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skilað umsögn til Alþingis eða sent (Gripið fram í.) eitthvað skriflegt hingað.

Forseti. Gæti ég fengið frið fyrir gólandi þingmanninum? (Forseti hringir.)

(Forseti (LínS): Forseti vill minna á það að þingmaður í ræðustól hefur orðið.)

Það fer greinilega illa í skapið á hv. þm. Birgi Þórarinssyni að hann er í vonda liðinu. Ef við fáum eitthvað skriflegt úr þessu samtali hans við vin sinn í Aþenu þá getum við borið það saman við t.d. ályktanir Þroskahjálpar, UNICEF, Amnesty International, Samtakanna '78, Rauða krossins og biskups Íslands vegna þessara brottvísana sem hv. þingmaður notar símtalið til vinar síns til að réttlæta. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst það ekki óboðlegur málflutningur að taka meira mark á þessu fólki, taka meira mark á þýskum dómstólum sem hafa knúið þýsk stjórnvöld til að taka til efnismeðferðar mál fólks sem annars væri sent á götuna í Grikklandi. Mér þykir ekki óboðlegur málflutningur að taka meira mark á þessu en einhverjum sögusögnum um símtal á milli tveggja kunningja. Það er náttúrlega bara della að halda að það sé eitthvað sem sé hægt að færa fram hérna.