Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

ákvörðun nr. 53/2021, nr. 54/2021, nr. 385/2021 og nr. 146/2022 um breytingar á IX. viðauka við EES-samninginn.

280. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Logi Einarsson) (Sf):

Frú forseti. Það verður nú kannski ekki alveg jafn mikið fútt í þessari ræðu og verið hefur en engu að síður ber okkur að fara yfir nefndarálit með breytingartillögu frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 53/2021, nr. 54/2021 og nr. 385/2021 og 146/2022, um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað talsvert um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu og leitar með þessari tillögu heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar:

1. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins frá 2019 um að auðvelda dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri og um breytingu á reglugerðum nokkrum, frá árinu 2019 sömuleiðis, um breytingu á tilskipunum frá 2009 og 2011 að því er varðar dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri.

2. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2021 og frá 5. 202 2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2016 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri.

3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:

a. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins frá 2015 um gagnsæi í fjármögnunarviðskiptum með verðbréf og um endurnotkun og breytingu á reglugerð nr. 648/2012.

b. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar frá 2019 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/2365 að því er varðar listann yfir aðila sem njóta undanþágu.

4. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar frá 2021 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins að því er varðar breytingu á viðeigandi viðmiðunarmörkum fyrir tilkynninguna um verulegar mikilvægar hreinar skortstöður í hlutabréfum.

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Að því gefnu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Orðið „verulegar“ í 4. tölul. tillögugreinarinnar falli brott.“

Undir þetta skrifa, ásamt þeim sem hér stendur, Birgir Þórarinsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, en þau voru öll fjögur fjarverandi við afgreiðslu málsins en taka undir álitið. Undir þetta rita að auki Bjarni Jónsson, Logi Einarsson, Óli Björn Kárason, Jakob Frímann Magnússon og Jóhann Friðrik Friðriksson.