Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[15:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þessi ágæta tillaga til þingsályktunar er ekki sett fram í neinu tómarúmi. Það er kannski ekki tilviljun að hún er sett fram núna, þó að hún hefði auðvitað, eins og komið var inn á, getað átt jafn vel við miklu fyrr, og hefði kannski þurft að ræðast og verða að veruleika. En við erum auðvitað að upplifa veröld sem er síst einfaldari en áður. Þessi sígilda tveggja skauta veröld er varðaði varnar- og öryggismál, þessi hefðbundnu, er ekki til staðar lengur og við sjáum margar þjóðir gera sig breiðar á alþjóðavettvangi og stíga niður fæti og það er kannski ekki eins greinilegt og áður með hvaða hætti valdataflið spilast. Við erum með öðrum orðum að horfa á skák þar sem ekki eru bara tveir að keppa, ekki bara svartur og hvítur, heldur eru margir við taflborðið hver með sína menn. Þar fyrir utan stendur okkur líka gríðarleg ógn af allt öðrum hlutum, þetta sem hefur verið kallað fjölþátta ógnir sem geta verið öryggisvandræði á ýmsum sviðum sem snerta tæknina, hvort sem það eru fjarskipti eða aðrir slíkir hlutir.

Vinkill tillögunnar, og ég er ekki að gera neina athugasemd við það í sjálfu sér, er tiltölulega skýrt miðaður að hinum hefðbundnu varnar- og öryggismálum og við þurfum svo sannarlega að sinna þeim. En það er rétt að vekja athygli á því að þjóðum heims stafar kannski jafn mikil hætta af annars konar þróun sem er að verða í veröldinni. Við erum auðvitað að upplifa samtíma þar sem við getum ekki látið okkur nægja að horfa bara til okkar næstu nágranna vegna þess að hegðun þjóða mjög fjarri okkur hefur áhrif á okkur og hegðun okkar hefur áhrif langt út yfir næstu landamæri og næstu ríki.

Við erum auðvitað áfram með þessi klassísku vandamál sem munu valda ófriði í heiminum og tefla friði í hættu sem eru óhóflegur ójöfnuður milli ríkari þjóða heims og þeirra fátækari. Þegar það leggst við þessa nýjustu ógn síðustu ára, sem eru loftslagsbreytingar, sem mun mögulega auka enn á mun ríkra og fátækra, sjáum við náttúrlega að það er augljóst mál að ófriður er líklegri á fleiri stöðum um alla veröld en áður. Við sjáum það þegar 100 milljónir manna eru á flótta undan hörmulegum aðstæðum, hvort sem það er hefðbundið stríð eða vond búsetuskilyrði vegna ofbeitar okkar á jörðinni, að þá stafar okkur auðvitað gríðarleg öryggishætta af því. Ég held að það hafi verið í gær sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ávarpaði COP27 í Egyptalandi og sagði að mannkynið stefndi sér og lífríkinu lóðbeint til helvítis, hann orðaði það þannig.

Þetta var kannski útúrdúr. Mér finnst hins vegar sjálfsagt að slík stofnun hafi svolítið frítt spil varðandi viðfangsefnið. Það sem ég er með öðrum orðum að benda á, án þess að gera lítið úr þessum hefðbundnu ógnum sem að okkur stafa í augnablikinu, er að ógnirnar eru svo margar og eru samhangandi og ekki alltaf hægt að skilja þær hverja frá annarri. Mér finnst góður bragur á því í tillögunni að leggja til að gerður verði samningur við Alþjóðastofnun Háskóla Íslands. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hið óháða fræðasamfélag fjalli um þetta og stýri þessu. Það getur þá birst með frumkvæðisvinnu í formi rannsókna, í formi skýrslna og greina og ráðstefna án þess að slík stofnun myndi lúta boðvaldi framkvæmdarvaldsins eða löggjafarvaldsins. Ég held að það sé mikilvægt.

Ég var nú svo heppinn í fyrravor að ná að heimsækja sambærilega stofnun í Finnlandi sem er staðsett ekki langt frá þinginu en er algjörlega sjálfstæð frá þinginu, 42 manna stofnun sem er fjármögnuð til helminga af finnska þinginu og til helminga af Evrópusambandinu en lýtur samt sem áður ekki boðvaldi annarra þessara tveggja aðila heldur er algerlega sjálfstæð í greiningum sínum, framsetningu og vinnu, og hvað hún skoðar. Eins og vonandi má heyra á orðum mínum þá er ég jákvæður út í þessa tillögu og mér finnst ómaksins vert að taka hana til umfjöllunar í nefndinni og skoða hvort ekki er þá e.t.v. hægt að gera einhverjar breytingar og koma aðeins í greinargerð inn á þessar ógnir sem okkur stafar vissulega hætta af, sem einhvern veginn eru ekki jafn augljósar og þessar beinu hernaðarógnir sem við erum svo vön að mæla allt við. Ég óttast að þrátt fyrir allt séu loftslagsbreytingar sem við stöndum frammi fyrir bæði flóknara viðfangsefni og taki miklu lengri tíma að vinna bug á. En ég mun vera jákvæður út í þessa tillögu og fjalla um hana í nefndinni og e.t.v. samþykkja hana þegar nær dregur þinglokum í vor.