Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög gott og mikilvægt að verið sé að ræða þessa hluti á vettvangi NATO og mikilvægt að það sé þá gert á þeim forsendum að við styrkjum þær þjóðir sem þurfa á því að halda. Það læðist að mér sá grunur að einstök ríki gætu frekar hugsað sér að bregðast við auknum flóttamannavanda með því að reisa múra og beina jafnvel byssuhlaupi að þeim sem neyðast til að flýja heimkynni sín en það verður sameiginlegt verkefni okkar næstu áratugi að snúa við til þess að gera jörðina byggilegri næstu þúsund ár en einnig að bregðast við og hjálpa öllum að fá tækifæri á þessum yfirgangstímum sem eru mjög flóknir. Við skulum ekki gleyma því að hvert einasta ár sem við náum ekki þessum sameiginlegu loftslagsmarkmiðum hrannast upp annar kostnaður vegna verkefna sem eru vegna tilfallandi áhrifa af því að við náðum þeim ekki. Ég held að hamfarirnar í Pakistan og á Flórída á þessu og síðasta ári séu dæmi um að við erum nú þegar farin að leggja út í alveg ótrúlegan kostnað vegna þess hve gráðugt við höfum gengið fram. Það er gott að heyra að við séum samstiga í þessu af því að öðruvísi mun okkur ekki farnast vel og munum fara, eins og ágætur maður sagði í gær, lóðbeint til helvítis.