Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem hér er verið að leggja til er að þetta rannsóknasetur öryggis- og varnarmála starfi undir hatti Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Ég held reyndar að það myndi koma fólki á óvart hversu margir íslenskir aðilar eru þó menntaður í þessum fræðum og þekking til á tiltölulega stórum og breiðum grunni sem gæti nýst í þeirri vinnu sem slíkt setur væri með. Það sem ég held að sé verið að reyna að ná fram með þessu líka er að við einbeitum okkur að því að ná þessari þekkingu fram á einum stað.

Nú fer málið væntanlega til utanríkismálanefndar og í umsagnir. Við munum vonandi fá góðar umsagnir við málið og tökum þær efnislega fyrir. Þannig að ég held að við getum unnið betur með málið. Það eru ágætir punktar búnir að vera hérna í umræðunni í dag sem sjálfsagt breikka aðeins í þessari vinnu. Sambærilegar stofnanir og hugveitur eru til annars staðar á Norðurlöndunum og eru nú að heimsækja okkur sýnist mér býsna margar í næstu viku, koma hingað til Íslands til að ræða þessi mál. Ég held að við Íslendingar þurfum að vera með okkar eigin undir að minnsta kosti þessu nafni en ég er svo sannarlega til í að skoða allar tillögur um hvernig við gætum náð utan um þessi mál með einhverjum heildstæðari hætti ef þannig vinnst. Þetta er það sem búið er að nota svolítið sumarið í að vinna með og haustið, að koma með þessa tillögu eins og hún stendur hér.