Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fór kannski svolítið lengra frá umræðunni áðan, andsvarið í seinna skiptið hjá hv. þingmanni. Það kemur alveg fram í greinargerðinni hvernig þetta er hugsað, út frá hvaða forsendum. Nú erum við búin að ræða þetta í örugglega klukkutíma og búið að halda framsöguna um málið. Þá kannski bara bið ég hv. þingmann aðeins að fara í gegnum greinargerðina og hvað málið snýst um, þótt ekki væri nema bara með grunnstefnu NATO sem var samþykkt í júní í sumar. Síðan er sérstaklega bent á norrænu yfirlýsinguna frá 15. ágúst þegar forsætisráðherrar Norðurlanda hittust í Noregi og ræddu þessi mál. Ég las upp áðan það sem þar stendur en þar segir að viðnámsþróttur norrænu samfélaganna skuli efldur á friðartímum, í hættuástandi og átökum með sameiginlegu stöðumati, samvinnu í allsherjarvörnum, hagvörnum og viðnámsþrótti gagnvart skaðvænlegum aðgerðum á borð við netárásir og fjölþátta ógnir.

Svo er NATO hlutinn með þessi fimm svið sem eru rædd þar. Það er hernaður í lofti, á landi og í sjó og svo það sem hefur bæst við á undanförnum árum sem snýr að stafræna heiminum og geimnum. Þetta er það sem er verið að fást við í grunninn með þessari hugmynd meira heldur en friðarsetrinu sem er undir sömu stofnun og ég er að benda hér á og leggja til að rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál sé sett undir. Þannig að það er grundvallarmunur á þessari nálgun sem hér er kynnt til leiks.