Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Auk mín eru á frumvarpinu hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Tómas A. Tómasson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding bókunarinnar skal fara fram eigi síðar en við árslok 2022. Ríkisstjórnin skal stefna að því að lögfesta bókunina og samninginn um réttindi fatlaðs fólks samtímis.

Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. löggjafarþingi (523. mál) og er nú lögð fram efnislega óbreytt.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Íslensk stjórnvöld undirrituðu hann 30. mars 2007 ásamt valfrjálsri bókun við samninginn. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, ásamt því að efla eðlislæga mannlega reisn þess og vinna að virðingu fyrir henni. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og að fötluðu fólki sé tryggð jöfn og árangursrík réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.

Alþingi samþykkti 11. júní 2012 þingsályktun nr. 43/140, um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Samkvæmt lið F.1 í III. kafla ályktunarinnar átti að leggja fram frumvarp til fullgildingar samningsins eigi síðar en á vorþingi 2013. Með þingsályktun nr. 61/145, sem var samþykkt 20. september 2016, var ríkisstjórninni veitt heimild til að fullgilda samninginn, sem var gert 23. september 2016. Með þingsályktun nr. 33/149, sem var samþykkt 3. júní 2019, var ríkisstjórninni falið að undirbúa lögfestingu samningsins og leggja fram frumvarp sem fæli í sér lögfestingu hans og aðlögun íslenskra laga að honum eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur ekki verið gert þrátt fyrir að slík fyrirætlan komi fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með frumvarpi sem lagt var fram 1. desember 2021 (þskj. 34, 34. mál á 152. löggjafarþingi) lagði Flokkur fólksins enn á ný til að samningurinn yrði lögfestur, en það náði ekki fram að ganga.

Valfrjáls bókun um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa einstaklinga vegna brota á samningnum var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006, um leið og samningurinn sjálfur. Íslensk stjórnvöld undirrituðu bókunina 30. mars 2007 ásamt samningnum. Þegar tillaga sú til þingsályktunar er varð að þingsályktun nr. 61/145 var til meðferðar á Alþingi var samþykkt breytingartillaga við hana þess efnis að auk samningsins sjálfs skyldi jafnframt fullgilda valfrjálsu bókunina fyrir árslok 2017. Með þeirri breytingu var þingsályktunartillagan samþykkt einróma, en þrátt fyrir það hefur bókunin ekki enn verið fullgild af hálfu Íslands.

Ljóst er að á undanförnum árum hafa réttindi fatlaðs fólks fengið aukið vægi, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi. Til vitnis um það hafa 184 ríki nú þegar fullgilt samninginn um réttindi fatlaðs fólks og af þeim hafa 100 ríki fullgilt valfrjálsu bókunina. Í tengslum við úttektir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi hafa íslensk stjórnvöld ítrekað verið hvött af öðrum ríkjum til að fullgilda valfrjálsu bókunina, nú síðast við þriðju allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála 25. janúar 2022. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við því hafa hingað til verið á þá leið að segja að fullgilding hennar sé til skoðunar, án þess að endanleg eða afgerandi afstaða hafi verið tekin.

Með fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði stuðlað að aukinni vernd þeirra réttinda sem koma fram í samningnum. Yrði þannig komið á fót sambærilegri kæruleið við þá sem lengi hefur verið til staðar vegna þeirra réttinda sem varin eru í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og við þá sem var samþykkt að koma á fót með fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins samkvæmt þingsályktun nr. 28/151. Þar með yrði nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gert kleift að taka við erindum frá einstaklingum og hópum einstaklinga á Íslandi. Með því að stíga þetta skref yrði vernd þessara mikilvægu réttinda aukin og er því lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda valfrjálsu bókunina og hefja undirbúning að lögfestingu hennar.

Ef við horfum aftur í tímann þá var hér á Alþingi samþykkt að lögfesta samning um réttindi fatlaðs fólks og á þeim tíma kom frétt á RÚV um málið. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég hef í raun og veru ekki haldbærar skýringar á því af hverju þetta er ekki á þingmálaskrá og verð að viðurkenna það. Ég skal með gleði taka þetta upp við dómsmálaráðherra og kanna hvar vinnan stendur.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún svaraði fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um hvers vegna það væri ekki á þingmálaskrá að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

„Meirihluti Alþingis samþykkti þingsályktunartillögu Ágústs á síðasta þingi um að það ætti að lögfesta samninginn. Samningur Sameinuðu þjóðanna hefur það að markmiði að tryggja réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Þegar ríki lögfestir samninginn ber það skyldu til „að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.“

„Ríkisstjórninni var falið að undirbúa lögfestinguna og að leggja fram frumvarp sem fæli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum eigi síðar en 13. desember 2020. Það er eftir einungis tvo mánuði. Hins vegar er ekkert svona frumvarp á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Af hverju? Vilji þingsins liggur alveg ljóst fyrir. Ráðherrar eiga að framfylgja vilja þingsins. Ráðherrar geta ekki valið og hafnað þingsályktunum eftir hentugleika.“

Þetta sagði Ágúst Ólafur Ágústsson á sínum tíma, með leyfi forseta. Það er þessari ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórn til háborinnar skammar að þær skuli draga lappirnar í svo langan tíma að fara að þeim lögum sem hafa verið samþykkt hér á þingi.

Áfram segir:

„Katrín sagði dómsmálaráðuneytið fara með málið og að það hefði verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar. „Ég veit að þetta hefur tekið tíma því þetta er töluvert flókið og hvort heimsfaraldur hafi eitthvað tafið fyrir því verkefni kann ég ekki að útskýra en ég veit að það hefur verið einhver vinna í gangi. Ég skal kanna það hvort við eigum von á slíku frumvarpi á þessu þingi því ég hef í raun og veru ekki haldbærar skýringar á því af hverju þetta er ekki á þingmálaskrá.“

Það er alveg staðreynd að þegar um málefni fatlaðs fólks er að ræða, málefni þeirra verst settu, eldri borgara og aldraðs fólks, þegar um málefni öryrkja eða þeirra sem verst hafa það í íslensku samfélagi er að ræða þá eru lappirnar dregnar í því að tryggja réttindi þeirra. Okkur ber skylda til þess hér á þingi, og sérstaklega þegar við erum búnir að samþykkja það fyrir tveimur árum síðan, að fara í það að lögfesta samninginn, að klára það.

Í 1. gr. valfrjálsrar bókunar við samninginn um réttindi fatlaðs fólks segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríki að bókun þessari viðurkennir vald nefndarinnar um réttindi fatlaðra til þess að taka við og fjalla um orðsendingar frá og fyrir hönd einstaklinga eða hópa einstaklinga sem falla undir lögsögu þess og telja sig þolendur brots þess á ákvæðum samningsins.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir að þegar, og vonandi sem fyrst, samningurinn verður lögfestur og valfrjálsa bókunin einnig þá hefur fatlað fólk vald. Því verður fært vald til að kæra alla þá meðferð sem það telur sig ekki fá en eigi lögbundinn rétt á. Þetta er gífurlega mikilvægt og sérstaklega í málefnum fatlaðs fólks vegna þess að við vitum að réttindi þeirra hafa því miður hingað til ekki verið sérstaklega vel varin.

Í 4. gr. valfrjálsu bókunarinnar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin getur, hvenær sem er eftir að henni berst orðsending og áður en ákvörðun um inntak hennar hefur verið tekin, sent hlutaðeigandi aðildarríki beiðni til skjótrar umfjöllunar þess efnis að aðildarríkið geri bráðabirgðaráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir hugsanlegt óbætanlegt tjón fyrir þolandann eða þolendur ætlaðs brots.“

Þetta er gífurlega mikilvægt og sýnir hversu nauðsynlegt það er að lögfesta þessa valfrjálsu bókun. Ef fatlað fólk telur á sér brotið á einhvern hátt þá getur það farið og kært. Þá ber ríkisstjórninni að taka tillit til þess. Annað sem er mjög gott í þessu er að hópar geta einnig kært, ekki bara einstaklingar.

Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta en ég vona heitt og innilega að þessi valfrjálsa bókun fari nú til velferðarnefndar og þar verði farið að vinna í því, og virkilega brett upp ermar, bæði að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og þessa bókun. Við verðum að átta okkur á því að í samningnum um málefni fatlaðs fólks er gefið upp mjög ítarlega hvað á að verja. Eins og segir um það í valfrjálsu bókuninni þá eru þarna kæruleiðir fyrir einstaklinga og hópa vegna brota á samningnum sem var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Þetta var 2006 en við erum komin í 2022 og ég segi: Við eigum ekki að leyfa okkur að bíða lengur með þetta. Það er búið að lofa þessu. Það er búið að samþykkja hér á þinginu að gera eitthvað í þessu máli. Núna eigum við að gera kröfu um það að við klárum þetta mál, bæði lögfestingu samningsins og lögfestingu valfrjálsu bókunarinnar í eitt skipti fyrir öll.