Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Stórt er spurt. Ég er ekki með svarið, ég er ekki með patentlausn á þessu en auðvitað vekur þetta okkur til umhugsunar. Hér erum við að ræða tvær þingsályktanir sem voru samþykktar. Vissulega voru ákveðin vandkvæði varðandi lögfestinguna á samningnum, það var ekki ljóst hvaða þýðingu ætti að notast við til að leggja fram með frumvarpi. En búið er að vinna bug á því vandamáli og þar ættum við að vera komin miklu lengra og hvað varðar fullgildingu bókunarinnar þá eru fimm ár síðan henni átti að ljúka. Eins og hv. þingmaður segir þá er það einföld stjórnvaldsathöfn. Það þarf ekki að hafa mikið fyrir því. Það er nánast bara að draga stimpil ofan úr hillu og ganga frá því uppi í ráðuneyti og skila þá væntanlega inn til Sameinuðu þjóðanna. En dæmið sem hv. þingmaður nefnir um ríkisborgararétt sýnir að þetta gerist ekki bara varðandi þingsályktanir, sem er svona veikari afurðin af þeim tveimur sem við skilum helst frá okkur, heldur líka varðandi hreinan lagabókstaf sem er þó sá sterki texti sem héðan kemur, sá sem á að fylgja. Þingsályktun er í raun kannski aldrei meira en sterk viljayfirlýsing sem stjórnvöldum ber ákveðin mórölsk skylda til að fylgja. En þegar farið er að brjóta lög gagnvart þinginu, og við erum búin að sjá hæstv. dómsmálaráðherra gera það í skjóli meiri hlutans allt þetta ár þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að vinna bug á því háttalagi, þá spyrjum við okkur eðlilega: (Forseti hringir.) Hvað gerir þingið þegar ríkisstjórnin hunsar skýran vilja þess? (Forseti hringir.) Við erum í dálitlum vanda meðan meiri hluti þings styður þá ríkisstjórn.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)