Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Jú, auðvitað myndi þetta verða öflugt verkfæri hjá fötluðu fólki til að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum. En það er kannski ástæðan fyrir tregðunni hjá stjórnvöldum, ekki bara þegar einstaklingar telja á sér brotið, að þeir geti fengið úr því skorið hjá óháðum aðila, heldur líka varðandi öll hin réttindin sem kosta beinharða peninga. Þar erum við kannski komin að helstu ástæðunni fyrir því að stjórnvöld sjá hag sinn í því að fullgilda ekki og lögfesta ekki vegna þess að þá þarf að fara að veita fötluðu fólki almennilega þjónustu sem þau hafa verið snuðuð um til þessa.

En þá datt mér í hug: Við þinglokasamninga hefst mikil rekistefna í þá veru að stjórnarliðar vilja ekki hleypa stjórnarandstöðunni í gegn með eitt einasta mál öðruvísi en að vísa því frá. Meðhöndlunin á þessum þingsályktunum tveimur sýnir að stjórnarflokkarnir gætu alveg eins leyft okkur að láta samþykkja þetta hér í þingsal (Forseti hringir.) ef það hefur í raun sömu áhrif. Við samþykkjum og það er ekkert gert með það, er ekki bara alveg eins hægt að vísa hlutum frá?