Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir ræðuna. Ég vil bara taka heils hugar undir það með honum, og ég gerði mér fulla grein fyrir því, að hann hefði viljað vera á þessu máli. Eigum við ekki að segja að málið fari inn í velferðarnefnd og fari með hraðferð í gegnum hana, verði samþykkt beint inn í þingsal og við gerum nefndarálit og hann verði örugglega með á því? Nei, það yrði eins og í draumaheimi.

Hv. þingmaður spurði hvers vegna ríkisstjórnin drægi lappirnar í að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og einnig valfrjálsu bókunina. Ég spyr hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé vegna þess að málefni fatlaðs fólks séu í óefni hjá ríkisstjórninni. Við erum með 150 fatlaða einstaklinga lokaða inni á hjúkrunarheimilum, einstaklinga sem eru jafnvel milli þrítugs og fertugs. Það segir okkur að það er eitthvað mikið að kerfinu. Stjórnvöld afsaka sig alltaf með því að það sé flókið að breyta öllum þeim lögum sem þarf að breyta og þar af leiðandi taki þetta langan tíma. En er hv. þingmaður ekki sammála mér um að þegar um er að ræða málefni fatlaðs fólks, aldraðra, öryrkja, þeirra sem utar standa, þá sé allt flókið og erfitt og mikið vandamál en þegar um það er að ræða að breyta lögum fyrir þá sem hafa það virkilega gott og hafa fjármunina þá séu hlutirnir ekki flóknir og þá sé ekki neitt erfitt að samþykkja lög sem gera það að verkum að hinir ríku verða ríkari?