Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Ég er innilega sammála honum. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá að fatlað fólk var bara vistað í útihúsum, sem segir okkur margt. Ég hef líka margoft bent á hreppaflutninga á fötluðu fólki. Maður myndi halda að það væri liðin tíð. En það er bara örstutt síðan ég sá frétt um að fatlaður einstaklingur á hjúkrunarheimili hafi verið fluttur hreppaflutningum út á land í andstöðu við hana sjálfa, hún var ekki einu sinni spurð. Svo heyrum við líka að verið er að úthýsa fötluðu fólki af hjúkrunarheimilum vegna þess að hjúkrunarheimilin telja sig ekki geta ráðið við að þjónusta viðkomandi. Við erum sammála því að það þarf að lögfesta samninginn og það þarf að lögfesta viðaukann. Þá fyrst er ekki hægt að horfa fram hjá réttindum fatlaðs fólks og þá verður að fara að taka á vandanum.