Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við mælum hér fyrir sannarlega sanngirnis- og réttlætismáli sem á ekki að þurfa að mæla fyrir oftar en einu sinni. Það er stór hluti þingheims sem er meðflutningsaðilar á þessari tillögu en samt sem áður ekki meiri hluti og ég get ekki séð að það séu margir úr ríkisstjórnarflokkunum sem styðja þessa tillögu um valfrjálsu bókunina, að við löggildum valfrjálsu bókunina um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég tel ástæðu til að taka sérstaklega fram hvernig í raun og veru hefur verið komið fram á margan hátt svívirðilega við fatlað fólk. Bara það að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki vera búin fyrir langa löngu að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir allt sem segja þarf um vilja hennar til að mæta þörfum fatlaðra á Íslandi í dag. T.d. langar mig að vísa hérna í j-lið formálsorða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem segir:

„Ríki, sem eiga aðild að samningi þessum, sem viðurkenna nauðsyn þess að efla og vernda mannréttindi alls fatlaðs fólks, þ.m.t. þess sem þarf mikinn stuðning, …“

Í 1. gr., í markmiðsákvæðinu, er tekið fram að markmiðið með samningi þessum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem valfrjálsa bókunin byggir á, sé „að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.

Til fatlaðs fólks teljast m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.“

Ég get ekki látið staðar numið hér, virðulegi forseti, öðruvísi en að vísa í 15. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs, fólks þar sem segir:

„Enginn skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einkum og sér í lagi er óheimilt að gera læknisfræði- eða vísindatilraunir á nokkurri manneskju án samþykkis hennar.“

Út úr þessari grein langar mig að taka hér í kjölfarið á mikilli umræðu sem hefur skotið upp kollinum og vaðið hér eins og eldur um akur, eðli málsins samkvæmt þegar ráðist er á fatlaðan einstakling í hjólastól. Það er í engu sem komið er fram við hann af mannúð eða virðingu þegar honum er vísað úr landi með valdi. Ráðist er að honum með slíkri grimmd að það er ekkert skrýtið þó að við rísum öll meira og minna upp á afturlappirnar til að fordæma slík vinnubrögð. Fékk þessi ungi maður að halda sinni reisn? Nei. Var komið mannlega fram við þennan mann? Var honum sýnd mannúð að einhverju leyti? Nei. Hvernig er þessi einstaklingur í stakk búinn til að vera sendur, í því ástandi sem hann er, aleinn á ókunnan stað, algerlega upp á sjálfan sig kominn og meira að segja sviptur því hjálpartæki, hjólastól, sem var þó a.m.k. að gera honum ferðirnar þægilegri heldur en það rusl sem hann var sendur með héðan frá okkur?

Ég vil bara benda á það, virðulegi forseti, að ef við værum búin að stíga það skref að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þá hefði aldrei verið hægt að koma eins svívirðilega fram við þennan unga mann, fatlaða unga mann, og við gerðum hér þessa margumtöluðu andstyggðarnótt.

Það er eitt að hafa heimildir til þess að vísa fólki úr landi og fylgja reglum og lögum. En það er annað að sýna manngæsku og mannúð þegar kemur að því. Það er nefnilega það. Það er enginn að tala um að hér eigi að vera opinn krani og allir eigi að koma til Íslands, allar þær milljónir manna sem eru að leita sér að betra lífi, 100 milljónir manna, 200 milljónir manna. Að sjálfsögðu erum við ekki að tala um það. En þegar ráðist er svona að fötluðum einstaklingi eins og þarna er gert þá er ekki furða þó að upp úr sjóði því gegnumheilt eru Íslendingar og við með risastórt hjarta úr gulli og við þolum ekki svona ljótar, mannvonskulegar aðfarir eins og þessi ungi maður mátti sæta.

Þannig að ég segi: Þessi viðauki sem hér er um rætt, þessi valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna sem við erum að óska eftir hér að verði samþykkt, er í rauninni lítið skref en nauðsynlegt skref í þá átt að veita a.m.k. einstaklingum, sem eiga eðli málsins samkvæmt að vera eins settir og kostur er á þann stað að vera sem næstir því að vera ófatlaðir miðað við fötlun sína — en erum við að gera það? Nei. Árum saman hefur verið ákall um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Flokkur fólksins mun mæla fyrir þessu frumvarpi enn eina ferðina, væntanlega mun ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur taka fallega utan um málið þegar ég mæli fyrir því vegna þess að þau hafa þegar gefið það út að samninginn eigi að löggilda.

Virðulegi forseti. Það var sem sagt með óbragð í munni og tárin í augunum sem stór hluti þjóðarinnar horfði á aðfarirnar þegar þessi ungi maður var gripinn eins og hver annar hveitipoki úr stólnum sínum og fleygt aftur í bíl eins og ég veit ekki hvað. Ég hef skömm á svona stjórnsýslu. Ég hef skömm á svona stjórnvöldum og ég hef skömm á því að við skulum ekki hafa dug til að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem sýnir enn og aftur hvaða álit íslensk stjórnvöld hafa á þeim sem minna mega sín, hafa á fötluðu fólki. Við höfum alltaf verið, og erum enn í þeirra augum, tíunda flokks þjóðfélagsþegnar.