Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég studdi það á sínum tíma að valfrjálsa bókunin yrði samþykkt, þ.e. að hana skyldi einnig fullgilda. Ég stend enn þá við það að ég telji að svo eigi að vera og álykta reyndar sem svo að sú vinna hljóti einhvers staðar að vera í gangi enda samþykkt ályktun hér á Alþingi.

Mig langar fyrst að segja að ég mótmæli því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur dragi lappirnar í þessum málum eins og hér hefur verið talað um. Það er vel hægt að vilja að hlutir gangi hraðar fyrir sig. Hins vegar er það í stjórnarsáttmála, og ekki verið rætt um neitt annað, að lögfesta skuli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og að koma á fót mannréttindastofnun. Að þessu er verið að vinna og hefur verið unnið að því síðan Ögmundur Jónasson var ráðherra að innleiða þennan samning, þ.e. með því að breyta öðrum lögum, til að mynda um málefni fólks með sértækar stuðningsþarfir. Það hefur verið gert til að koma til móts við samninginn og færa okkar löggjöf í rétta átt.

En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort að hún eða hennar þingflokkur hafi beint fyrirspurn til dómsmálaráðherra, sem að hafði alla vega einu sinni með þetta mál að gera, um það hvernig vinnunni við nákvæmlega þetta mál er háttað?