Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er með ólíkindum að tala svona, auðvitað fylgjast ráðherrar með því sem er á þingmálaskrá. Eins og ég kom að í mínu fyrra andsvari þá var samþykkt hér á Alþingi að þetta væri partur af því máli sem er undir. Líkt og ég rakti áðan þá er unnið að því að koma með frumvarp sem varðar lögfestingu á samningnum og einnig að koma hér á fót mannréttindastofnun. Fleiri ræðumenn í dag hafa talað um að hér sé í rauninni verið að flytja mál sem hafi í aðeins annarri mynd þegar verið samþykkt á Alþingi. Auðvitað er það okkar að ýta eftir því að sú vinna sem þarf að vinna sé unnin. Þess vegna spurði ég hv. þingmann hvort hún og hennar þingflokkur hefðu kallað eftir einhverju í formi fyrirspurna. Mér finnst bara sjálfsagt að halda þessu máli við og áfram því að ég tel alla vega að íslensk stjórnvöld hafi gengist undir það með samþykkt á Alþingi að valfrjálsa bókunin sé partur af þessum málum, enda er þetta partur af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Svo vil ég líka mótmæla því að það sé einhvers konar skeytingarleysi í garð kjara öryrkja hjá ríkisstjórninni. Við vitum að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra er að vinna að frumvarpi um breytingu á lögum um almannatryggingar. Vinna við endurskoðun á lögunum hefur tekið langan tíma og það þarf að klára þá vinnu, en það þarf líka að vanda vel til verka og vinna þessi lög í góðri sátt. Það er hann að gera, m.a. með Öryrkjabandalaginu, og svo hafa bætur verið hækkaðar. Það er alltaf látið eins og það hafi ekki orðið nein hækkun en bætur hafa hækkað. Þarf að halda áfram að bæta kjör öryrkja? Já, það þarf að gera og að því vinnum við.