Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Bætur hafa hækkað og allt að gerast, ráðherrann er að vinna í málunum og hefði, skyldi, geri og gleðileg jól og allt það. Staðreyndin er hins vegar sú að kjaragliðnun öryrkja- og almannatryggingaþega er nánast að slá Íslandsmet. Á meðan alþingismenn og upparnir í samfélaginu fengu leiðréttingu sinna launa eftir hrunið 2008 voru engir sem sátu eins mikið eftir og almannatryggingaþegar.

Við erum að tala um valfrjálsu bókunina og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ríkisstjórn Íslands er í lófa lagið að samþykkja þessa valfrjálsu bókun, gera það í gær og löggilda strax samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hefði getað gert það fyrir löngu síðan. Viljinn er hins vegar enginn, annars væri búið að framkvæma þetta fyrir löngu síðan, hv. þingmaður. Það er í rauninni dapurt hvernig komið er hér upp og reynt að verja það sem er óverjandi, hvernig verið er að níðast á fötluðu fólki, fátæku fólki og öryrkjum þessa lands og ætla á einhverjum tímapunkti að verja það. Ég skil hv. þingmann að því leytinu til að hún er fulltrúi í þessari ríkisstjórn.