Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma aftur upp í umræðu um valfrjálsu bókunina og ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni. Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson spurði hér: Hvað er verið að skoða í þessum málefnum? Ég veit það ekki. Ég held að ríkisstjórnin hafi síðustu fimm árin verið í naflaskoðun og kannski fundið eitthvert kusk þar. Það er alveg á hreinu að ríkisstjórnin dregur lappirnar í öllu sem varðar málefni fatlaðs fólks. Síðan kom hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hér upp og benti á að það væri mikið í gangi hjá ríkisstjórninni, þau væru að endurskoða almannatryggingakerfið, það væri verið að ganga í að lögfesta samninginn og breyta lögum og öðru og þetta væri mjög flókið og erfitt mál. Þau eru búin að hafa fimm ár. Með sama hraða, miðað við þær nýju upplýsingar sem ég hef í hv. velferðarnefnd, þá tekur þetta örugglega 50 ár í viðbót og ég segi bara: Guð hjálpi okkur, vonandi verður ríkisstjórnin ekki við völd þá heldur bara sem styst, vegna þess að á meðan hún er við völd þá mun ekkert verða gert í þessum málefnum.

Við sjáum það vel t.d. á þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð við endurskoðun almannatryggingalaganna. Hvers vegna hefur það tekið svo langan tíma? Jú, það er vegna þess að það átti að troða ofan í kok á öryrkjum starfsgetumati. Ég var í þeim nefndum, nefnd Péturs Blöndals og næstu nefnd á eftir. Það vantaði ekki gagnamagnið og það vantaði ekki upplýsingarnar en vandamálið var alltaf að það átti að þvinga fatlað fólk og öryrkja til hlýðni. Það átti aldrei að spyrja hvað það vildi eða gefa því tækifæri til að taka þátt í að ákveða hvernig hlutirnir ættu að vera. Nei, það átti bara að gera þetta samkvæmt vilja þeirra sem eru ófatlaðir, ríkisstjórnarinnar.

Við vitum líka hvernig fór með krónu á móti krónu-skerðingarnar. Hvaða flokkar lofuðu ekki hér fyrir síðustu þrennar kosningar að afnema krónu á móti krónu-skerðingar? Hverjar eru efndirnar? Jú, við erum með 65 aura á móti krónu í dag. Það átti að vera fyrsta skrefið. Ríkisstjórnin hefur sparað sér á þessu tímabili milljarða á ári og tugi milljarða með því að draga lappirnar í þessum málum — tugi milljarða. Og hvers vegna í ósköpunum haldið þið að núna fari þau eitthvað að flýta sér og bretta upp ermarnar og reyna að fara að gera eitthvað? Þau væru löngu búin ef þau hefðu viljað það. Við höfum séð að það er hægt að keyra í gegnum þingið mál á liggur við einum klukkutíma ef vilji er fyrir hendi. Það er alveg á hreinu að ef þessi ríkisstjórn hefði haft vilja til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna og ganga frá því og fullgilda viðaukann og lögfesta hann þá væri hún löngu búin að því. Málið er bara ósköp einfalt, þau vilja ekki gera það og ætla sér ekki að gera það.

Ég hef séð líka hvernig á að fara með endurskoðun almannatrygginga. Það er ekki verið að ljúka endurskoðun almannatrygginga á þessu ári, það er ekki verið að ljúka endurskoðun almannatrygginga á næsta ári og ekki á þarnæsta eða þarþarnæsta ári. Þetta er bara áætlað langt fram í tímann. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að þá er hægt að draga hvern einasta hlut lengur og lengur þannig að það séu minni líkur á því að öryrkjar og fatlað fólk fái sín réttindi. Það er fullyrt að ríkisstjórnin hafi hækkað bætur almannatrygginga. Jú, það er rétt, þau hækka bætur almannatrygginga og það er enginn efast um að þau séu að gera það en eru þau að hækka þær nóg? Eru þau að hækka þær samkvæmt lögum, skv. 69. gr.? Fara þau eftir launaþróun? Nei, það er komin yfir 50% kjaragliðnun. Og þegar þau hækka þá koma þau rosalega stolt og segja: Við hækkuðum um 3%, við hækkuðum um 4%. Síðustu 3%, hækkunin sem var núna í sumar og þau eru að hæla sér svona rosalega af, ég er búinn að sýna það og það er mjög einfalt reikningsdæmi: 3% hækkun, almenn hækkun á bætur almannatrygginga, í flestum tilfellum skilar bara 20% af henni sér í vasa þeirra sem eru heppnir, hjá sumum ekkert vegna skerðinga og keðjuverkandi skerðinga. 80% rennur strax beint í ríkissjóð aftur. Og hvers vegna vilja þau hafa þetta svona? Jú, vegna þess að það hentar. Þau vita það. Þau geta hælt sér af því: Jú, við settum peninga inn í þetta. En þau vita ósköp vel að þeir peningar fóru að stórum hluta í gegnum vasa þeirra sem þurftu á þeim að halda og beint aftur í ríkissjóð. Og það sannar þetta svart á hvítu að það sem við höfum gert undanfarin ár þegar við erum að koma með jólabónus eða aukagreiðslur að við erum með þær skatt- og skerðingarlausar. Það er ekkert að ástæðulausu. Það er það eina sem skilar sér beint í vasa viðkomandi, eins og á sínum tíma þegar ég fékk samþykkt að bifreiðastyrkir yrðu skattlausir. Þá fóru þeir að skila sér beint til viðkomandi sem styrkur til að hjálpa þeim, til að aðstoða viðkomandi við að geta verið með bifreið og annað. Eins og þetta var sett upp áður þá var þetta kvöð vegna þess að það endaði með því að skerða ekki bara venjulegar bætur innan almannatrygginga heldur fór það yfir í félagsbótakerfið og í húsaleigubætur og annað sem kom bara auðvitað málinu ekkert við. Hvað kemur bílastyrkur húsaleigubótum við?

Þetta gildir um allt. Sama er með fjármagnstekjur. Hvers vegna í ósköpunum er t.d. bara 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrissjóði? Hefur einhver fengið skýringu á því? Hverjum datt það í hug? Af hverju 25.000 kr.? Af hverju ekki 50.000, 100.000, 200.000? Af hverju 25.000 kr.? Það er óskiljanlegt fyrirbrigði. Þetta sýnir að ríkisstjórnin gerir bara ekkert fyrir okkur. Við vitum líka að þau hafa verið að hæla sér hérna af því hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera en þegar hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir svaraði kom hún ekkert að því hvers vegna í ósköpunum frítekjumarkið er aldrei hækkað. (Gripið fram í: … skoða það.) Hvers vegna í ósköpunum? Þið eruð kannski að skoða það en þið eruð búin að vera að skoða það kannski í fimm ár. Frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja ætti að vera 250.000 en ekki 109.000. Frítekjumark á fjármagnstekjuskatt ætti að vera margfalt. Þetta hefur ekki hækkað í á annan tug ára. Þetta er skattur. Þetta er skerðing á réttindum og fjármunum öryrkja. Það er verið að taka þarna fjármuni með því að sleppa því að hækka þetta frítekjumark. Þar af leiðandi liggur staðreyndin liggur fyrir.

Ég vona heitt og innilega að eitthvað verði gert í þessum málum en því miður hef ég enga trú á því með þessa ríkisstjórn við völd, því miður. Það verður í fyrsta lagi eitthvað vonandi sem skeður þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum og brettir upp ermarnar og kemur hlutunum í lag. Fatlað fólk á þann rétt að það sé farið að lögum og að við göngum í það að vera ekki bara með einhverja sparisamninga um samning Sameinuðu þjóðanna, skrifum undir og þykjumst ætla að gera hlutina. Við eigum að fara að sjá til þess að það sé gert og standa við það sem við lofum og sýna a.m.k. einu sinni þann manndóm að virða alþjóðleg réttindi fatlaðs fólks. Maður getur alltaf látið sig dreyma en það er mjög ólíklegt, því miður, að þessi ríkisstjórn muni sjá til þess. En vonandi, ég bara vona heitt og innilega að hún samþykki og við náum þessu máli um valfrjálsu bókunina út úr velferðarnefnd. Ef það tekst þá er stórt skref komið vegna þess að þá hefur fatlað fólk kæruheimildina. Þá getur það varið sig.