Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og stuðninginn við frumvarpið. Ég er hjartanlega sammála öllu því sem kom fram hjá hv. þingmanni. Það er mikilvægt að þetta verði rannsakað. Það eru til gögn á Þjóðskjalasafni sem eru sökum persónuverndar ekki aðgengileg nema fræðimönnum, það þarf að rannsaka þau. Það þarf að fara ofan í þetta. Það hefur komið fram, t.d. í heimildarmynd Ölmu Ómarsdóttur, að stundum voru ástæðurnar ekki alveg á hreinu af hverju ákveðnir aðilar fóru á Kleppjárnsreyki á meðan aðrir fór annað. Í þeirri heimildarmynd er saga einnar stúlkunnar sögð og greint frá því hve mikil áhrif þetta hafði á hana alla tíð en hún tók sitt eigið líf langt fyrir aldur fram.

Ég er líka hjartanlega sammála hv. þingmanni um að stjórnvöld geti án nokkurrar rannsóknar beðist afsökunar. Við höfum séð það í öðrum löndum, t.d. nú nýlega í Kanada, þar sem stjórnvöld hafa beðist afsökunar þrátt fyrir að rannsókn sé ekki lokið. Þótt sú afsökun sé í dag jafnvel aðeins táknræn, þar sem flestar þessar konur eru því miður ekki lengur á meðal vor, hefur hún mikilvæg áhrif á ættingja og aðra sem þær þekkja.