153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða. .

[11:07]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir það tækifæri að fá að flytja Alþingi stutta skýrslu um loftslagsmál. Ég mun í skýrslu minni fjalla um loftslagsmarkmið Íslands og áherslur mínar hvað þau varðar. Í lokin mun ég fjalla um þátttöku Íslands á 27. aðildarríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP27, sem sett var þann 6. nóvember í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi. Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum sem er að Ísland verði kolefnishlutlaust og hætt verði alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2040. Verkefnið er stórt og kallar á samdrátt í losun upp á 1,3 milljónir tonna af CO2 á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030. Hert markmið Íslands um samdrátt í losun og markmið um kolefnishlutleysi og full orkuskipti kalla á skýrari sýn og að ný nálgun verði viðhöfð sem byggir á markmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífsins, aukinni áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins. Efla þarf samstarf stjórnvalda, atvinnulífs, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila með það markmið að leiðarljósi að ná betri og öflugri samskiptum og þannig meiri árangri á skemmri tíma. Ég tel farsælast að ólíkir aðilar af öllum sviðum samfélagsins vinni saman til að leita allra þeirra lausna sem við þurfum til að leysa verkefnið. Nauðsynlegt er að stjórnvöld, atvinnulíf og sveitarfélög stígi enn ákveðnari inn í aðgerðaáætlun Íslands með eigin markmiðum og aðgerðum. Áfram verður unnið með þær aðgerðir sem settar hafa verið fram í núgildandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem enn eiga eftir að skila frekari samdrætti en sú vinna sem er fram undan mun verða til þess að aðgerðaáætlunin verði uppfærð og skipulag verkefnisstjórnar um aðgerðaáætlun verði endurskoðuð. Ég tel nauðsynlegt að í næstu aðgerðaáætlun Íslands verði athyglinni sérstaklega beint að þremur meginsviðum; geirasamtali og aðgerðum atvinnulífsins, eflingu hringrásarhagkerfisins og orkuskiptum.

Fyrst að geirasamtalinu. Eitt helsta hugðarefni mitt og áherslumál sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er að efla þátttöku íslensks atvinnulífs í mótun og framkvæmd loftslagsaðgerða. Íslenskt atvinnulíf hefur látið þetta málefni sig varða og það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með þeim fyrirtækjum sem þegar eru komin á fleygiferð. Verkefnið fram undan er stærra, að allir geirar atvinnulífsins setji fram sín eigin markmið og aðgerðir en samvinna atvinnulífs, sveitarfélaga og stjórnvalda er lykilatriði til að árangur náist. Niðurstaða geiravinnunnar verður hryggjarstykkið í uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Á sama tíma og við vinnum markvisst í geirasamtalinu að því að ná loftslagsmarkmiðum 2030 leggjum við grunn að afar mikilvægri stefnumótunarvinnu sem snýr að markmiði um kolefnishlutleysi.

Þá að hringrásarhagkerfinu. Loftslagsmarkmiðum verður ekki náð nema við færumst úr línulegu hagkerfi í hringrásarhagkerfi. Tryggja þarf að allar auðlindir sem nýttar eru verði að verðmæti og nýsköpunar- og frumkvöðlastarf í atvinnulífinu leikur þar lykilhlutverk. Samkvæmt nýrri rannsókn er hráefnanotkun í hagkerfi Íslands líklega um 8,5% hringræn. Það er svipað hlutfall og í hagkerfi heimsins alls. Þegar við horfum til þess að umbreyta þurfi yfir 90% af hagkerfi Íslands og alls heimsins úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi þá sé ég fyrst og fremst tækifæri. Fyrir utan jákvæð áhrif á loft, jörð og haf fylgja svo umfangsmikilli breytingu gríðarlega spennandi tækifæri í nýsköpun atvinnulífs, atvinnusköpun og forskoti á samkeppnismarkaði. Ég tel mjög mikilvægt að innleiðing hringrásarhagkerfis hér á landi gangi sem hraðast fyrir sig og á mörgum sviðum er þörf á markvissum aðgerðum til að bæta úrgangsstjórnun og hvetja til hugarfarsbreytingar og nýsköpunar í sambandi við hráefnanotkun. Í því ljósi hef ég nýlega skipað starfshóp sem hefur það verkefni að leita leiða til að flýta eins og kostur er innleiðingu hringrásarhagkerfis, auka samstarf ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila við innleiðingu, tryggja að atvinnulífið verði leiðandi á þessu sviði og ýta undir nýsköpun hér á landi.

Þá að orkumálum og orkuskiptum. Ég tel að það hafi verið mikið framfaraskref við myndun ríkisstjórnarinnar að setja saman í eitt ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmál, enda er ófært að leysa loftslagsmálin án þess að orkumálin séu tekin með í reikninginn. Gert er ráð fyrir að framlög til stuðnings orkuskipta verði aukin verulega. Frá því að ég tók við embætti ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála hef ég lagt mig fram um að setja af stað fjölmörg verkefni sem falla undir áherslur orkustefnu og þá sérstaklega undir orkuöryggi og orkuskipti. Ég lét vinna svokallaða grænbók um stöðu og áskoranir í orkumálum sem er góður grunnur til að byggja á. Kyrrstaðan í virkjunarmálum hefur verið rofin með afgreiðslu Alþingis á rammaáætlun og liðkað hefur verið fyrir aflaukningu virkjana með því að undanskilja þær frá ferli rammaáætlunar. Nú er unnið að því að efla orkuöryggi á öllum sviðum, hvort sem það tengist raforku, eldsneyti eða varma. Þá er nauðsynlegt að tryggja framboð jarðvarma til hitaveitna nú og til framtíðar litið og unnið er að mikilvægum verkefnum þar að lútandi. Stefnumótun og regluverk fyrir vindorku, hvort sem hún er á landi eða á hafi, er í vinnslu og mótun. Það er sem betur fer mikil gróska og gerjun á þessu sviði sem mér fellur vel að styðja við, enda leggja verkefnin hvert og eitt okkur lið í að mæta markmiðum og skuldbindingum í loftslags- og orkumálum.

Markmið stjórnvalda í loftslagsmálum kalla á orkuskipti, bæði í samgöngum á landi, varðandi skipaflotann og í flugsamgöngum. Ljóst er að við það að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti náum við miklum samdrætti í losun CO2. Í dag er staðan sú að öll lönd í Evrópu leita nú ljósum logum að orku til að keyra í gegn sín orkuskipti. Vandinn er að þau eiga fæst tök á því að afla þeirrar orku með eigin auðlindum. Þess vegna hafa margir erlendir aðilar rennt hýru auga til Íslands í þeim tilgangi að fá aðgang að okkar auðlindum til að flytja þær út og nýta í orkuskipti erlendis. Í mínum huga er ljóst að það er í algerum forgangi að ef við ákveðum að fara í frekari orkuöflun og nýta til þess íslenskar auðlindir þá verðum við að forgangsraða þeim aðgerðum í þágu okkar eigin orkuskipta. Aðeins þannig náum við markmiðum okkar í loftslagsmálum. Aðeins þannig verður það þess virði að ráðast í orkuöflunarframkvæmdir og aðeins þannig getum við orðið sjálfum okkur nóg. Þróun síðustu vikna á alþjóðavettvangi ætti að sýna okkur svart á hvítu hversu mikilvægt það er að standa á eigin fótum í orkumálum.

Orkusjóður hefur í ár úthlutað 1,1 milljarði kr. til orkuskiptaverkefna sem er langstærsta úthlutun sjóðsins hingað til. Eftirspurnin eftir styrkjum úr sjóðnum var mjög mikil eða um fjórföld sú upphæð sem sjóðurinn hafði úr að spila. Sem betur fer er áhugi fjárfesta og frumkvöðla mikill en þeir leggja til meiri hluta fjármagnsins til verkefna á móti sjóðnum. Það er afar hvetjandi að sjá áhugann á orkuskiptum og þann fjölda raunhæfra verkefna sem hlutu styrk en þau eiga það sammerkt að þau eru strax frá gangsetningu að vinna að orkuskiptum. Vel hefur tekist að styðja við dreifingu verkefna um land allt enda mjög mikilvægt að enginn landshluti verði eftir þegar kemur að grænu orkuskiptunum.

Orkusjóður er áfram að þróast og færa út kvíarnar frá því að vera með í raun einungis eitt einfalt verkefni fyrir nokkrum árum síðan, sem var að styðja við uppbyggingu hleðslustöðva um landið, yfir í það að styðja við orkuskiptin á nýju sviðunum, á hafinu og í flugi og fasa út í olíuiðnaði og styðja við framleiðendur rafeldsneytis. Til skoðunar er að efla sjóðinn enn frekar með nýjum verkefnum sem einnig eru tengd orkuskiptum.

Til að árangur náist er mikilvægt að huga að styrkingu stjórnsýslu loftslagsmála, bæta miðlun upplýsinga og huga að stofnanaumhverfi. Upplýsingar eru lykill að árangri og mikilvægt er að bæta þekkingu og tryggja að fullnægjandi grunnupplýsingar liggi fyrir um mat á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis og að það sýni stöðuna gagnvart markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Grundvallarþáttur í mati á árangri aðgerða er þekking á sögulegri losun sem birtist í losunarbókhaldi Íslands. Ég hef því látið skoða sérstaklega hvernig megi styrkja enn frekar losunarbókhaldið, m.a. með því að efla sérfræðivinnu í stofnunum varðandi mat á losun og bindingu vegna landnotkunar og spár um losun. Það er ekki síður mikilvægt að upplýsingar tengdar loftslagsmálum, losunartölur og framreikningar séu settir fram á skýran hátt og þeir sýni stöðuna gagnvart markmiðum okkar í loftslagsmálum. Í þessu skyni hef ég hafið undirbúning við gerð mælaborðs loftslagsupplýsinga þar sem markmiðið er að þessar upplýsingar séu öllum aðgengilegar og skýrar. Það er von mín að upplýsingar frá þeim stofnunum og aðilum sem málið varða muni í framtíðinni tengjast saman á mælaborðinu þannig að hægt verði að nálgast sem mest af upplýsingum á sem einfaldastan hátt. Við þurfum að koma skýrum skilaboðum á framfæri reglulega um hvernig gangi að ná markmiðum okkar.

Til viðbótar má nefna greiningarverkefni sem er að fara af stað varðandi mat á stöðu og hlutverki loftslagsráðs. Gerður verði samanburður á sams konar ráðum í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við. Ég hef sett af stað vinnu við endurskipulagningu stofnana í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, en sú vinna skiptir máli í þessu samhengi þar sem stofnanaumhverfi verður að styðja við loftslagsmarkmiðin. Annars náum við ekki árangri. Stofnanir ráðuneytisins eru 13 talsins og stöðugildin eru 500 en starfsmennirnir eru fleiri. Þessar stofnanir gegna lykilhlutverki og sinna bráðnauðsynlegri þjónustu við almenning en taka má fram að meiri hluti starfsmanna telur sóknarfæri falin í sameiningu. Mér varð snemma ljóst að grundvöllur væri fyrir aukinni samvinnu og samlegð á milli stofnana ráðuneytisins, enda mörg verkefni sem skarast.

Í seinni hluta skýrslu minnar mun ég fjalla um COP27. Eins og áður segir er fundurinn hafinn, en hann er haldinn í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sækir fundi fyrir hönd stjórnvalda og flytur ávarp Íslands en að læknisráði var þeim sem hér stendur meinað að takast á hendur svo langt ferðalag. Í hinni opinberu sendinefnd eru starfsmenn umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, matvælaráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar.

Margt er til umfjöllunar á fundinum en egypska formennskan hefur lagt sérstaka áherslu á málefni varðandi aðlögun, töp og tjón og fjármögnun loftslagsaðgerða. Á fundinum leggur Ísland áherslu á mikilvægi þess að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C frá iðnbyltingu og að það verði staðfest í ákvörðun fundarins. Í því sambandi þarf að halda á lofti niðurstöðum vísindaskýrslna þar sem niðurstöður benda allar í þá átt að langt sé í að þessu markmiði verði náð miðað við núverandi stöðu mála. Lögð verður áhersla á að tryggja þarf aukinn metnað í framkvæmd aðgerða til að ná megi því markmiði sem er að stefnt og þar eru vinnustraumar um mótvægisaðgerðir og hnattræna stöðutöku mikilvægir fyrir áframhaldandi vinnu að samningsmarkmiðum. Ísland leggur einnig áherslu á aðlögun að loftslagsbreytingum og fjármögnun loftslagsmála með áherslu á jafnréttismál og réttlát umskipti að leiðarljósi. Vinnustraumar um aðlögun sem Ísland fylgist með snúa sérstaklega að fyrirkomulagi við skýrslugjöf um aðlögun, að hafa sameiginlegan skilning á alþjóðlegum markmiðum um aðlögun og leiðum til þess að meta árangur þjóða í átt að því. Vaxandi áhersla er á loftslagsmiðaða þróunaraðstoð og voru framlög aukin umtalsvert á síðasta ári. Vert er að benda sérstaklega á að á árinu var tekin ákvörðun um að styrkja aðlögunarsjóðinn og Ísland tekur virkan þátt í starfi græna loftslagssjóðsins. Ákveðið hefur verið að Ísland fari ásamt Síle fyrir samstöðuhópi sem hefur það markmið að vekja athygli á bráðnun jökla, heimskautasvæða og þiðnun sífrera og afleiðingum þess. Verkefnið, sem fengið hefur nafnið „Ambition on Melting Ice“, hefur það að markmiði að vekja athygli á bráðnun jökla, heimskautasvæða og þiðnun sífrera og afleiðingum þessa. Sérstakur viðburður verður þessu tengdur þar sem ráðherra mun flytja ávarp. Fyrr á árinu voru send inn tvö innlegg í vinnustraum um hnattræna stöðutöku, annars vegar um freðhvolfið og hins vegar um jarðvarma. Ísland hefur unnið að því að samþætta markmið í loftslagsmálum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og mikil áhersla er á náttúrumiðaðar lausnir. Málefni hafsins og möguleg áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins eru sterk í áherslum Íslands. Málefni jafnréttis, kolefnisföngunar og -geymslu eru einnig ofarlega á dagskrá. Ísland fylgist vel með vinnustraumi um markaði með kolefniseiningar. Þó svo að íslensk stjórnvöld hafi enn sem komið er ekki tekið ákvörðun um þátttöku í því kerfi er mikilvægt að fylgjast áfram með þeim ákvörðunum sem teknar kunna að verða.

Virðulegi forseti. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Við þurfum að hafa okkur öll við til að ná þeim markmiðum. Það er ekki barátta eins ráðuneytis eða eins ráðherra. Í þessari baráttu þurfa allir að leggjast á eitt; atvinnulíf, sveitarfélög og stjórnvöld. Ég treysti á stuðning Alþingis í þeim verkefnum sem fram undan eru. Ég hlakka til að eiga góða og gagnlega umræðu við þingmenn hér í dag um þetta mikilvæga málefni. Ég efast ekki um að við öll sem eitt ætlum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að ná árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.