153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða. .

[11:22]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það hlýtur auðvitað að vera þannig, og ég vona að ég skilji það rétt, að skuldbindingar atvinnulífsins þurfi að vera í takt við markmið stjórnvalda og að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda, hvort sem það er úr landbúnaði, iðnaði eða öðrum geirum, annarri atvinnustarfsemi, hljóti að stuðla að samdrætti í losun eins og stjórnvöld stefna að í samræmi við Parísarsamninginn.

Mig langar til að inna hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eftir því hvernig hann sjái fyrir sér — ef samtalið nær ekki þeim árangri sem stefnt er að, erum við þá ekki sammála um að það þurfi að setja niður sérstök markmið sem atvinnulífið þarf að laga sig að, ef við gefum okkur að forsvarsmenn þess gætu haft aðrar hugmyndir um markmið en stjórnvöld hafa?