153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða. .

[11:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði að Ísland hefði sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og sagði jafnframt, sem er rétt, að áherslan í Egyptalandi verði á að tryggja aukinn metnað aðildarríkjanna. Ég fæ þetta ekki alveg til að fara saman vegna þess að sá metnaður sem ráðherrann lætur eins og sé Íslandi næstum um megn að standa undir er ófullnægjandi, er eitt af þeim landsframlögum sem þarf að hækka fyrir loftslagsráðstefnuna. Miðað við þær stefnur og aðgerðir sem komnar eru til framkvæmda hjá ríkjum heims stefnir í 2,7° hækkun hitastigs. Miðað við það sem ríki heims hafa lofað fyrir 2030 er hún 2,4°. Hér getur Ísland ekki skotið sér undan ábyrgð og látið eins og við séum með allt í himnalagi, bara af því að hæstv. ráðherra finnst við vera metnaðarfull. Við erum ekki nógu metnaðarfull. (Forseti hringir.) Það var niðurstaðan á ráðstefnunni í Glasgow. Ég spyr, herra forseti: (Forseti hringir.) Ætlar ráðherrann í alvöru að láta þau markmið sem þegar liggja fyrir duga eða ætlar hann að standa með framtíðinni?