153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[11:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Orkuskipti, orkuskipti, orkuskipti. Það virðist vera eina lausnin sem talað er um á stjórnarheimilinu og þá sér í lagi að fara að virkja meira. Það er svo sannarlega gott að við viljum draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum og hjá smærri fyrirtækjum en það þýðir samt lítið að tala fallega og nefna einhver metnaðarfull markmið á meðan ekki eru í rauninni til fullfjármagnaðar aðgerðaáætlanir með föstum markmiðum til að ná þessu. Gott dæmi um það er að það skortir mikið á innviði til að geta farið alla leið í orkuskiptum í samgöngum og það þarf líka þrýsting og hvata til þess að fólk skipti um. Það er ánægjulegt að heyra að það sé verið að tala líka við fyrirtækin en saman falla samgöngur og þessi smærri fyrirtæki og miðlungsstóru undir það sem kallast samfélagslosun. En það er mikilvægt að hafa í huga að af losun Íslands 2020 var þessi samfélagslosun aðeins 36%. Það er nefnilega einn geiri sem losar mest á Íslandi eða 44%, en það er stóriðjan. Já, fimm fyrirtæki, erlend fyrirtæki, spúa 2 milljónum tonna af koltvísýringi út í loftið á hverju ári. Við þurfum að láta þessi fyrirtæki setja sér skýr markmið um hvernig þau ætla að ná 55% samdrætti til 2030 og hvernig þau ætli að vera með okkur í því að ná hlutleysi árið 2040. Ef þau eru ekki til í að setja markmið sem hafa einhver áhrif þá þurfum við að setja löggjöf og jafnvel sektir á þessi fyrirtæki ef við ætlum að ná okkar markmiðum. Þriðji stærsti geirinn er síðan landbúnaður. Það er mikilvægt að við vinnum með bændum þar, bæði í að draga úr mengun en líka í að binda kolefni. Að lokum þurfum við að setja enn meiri fókus á græna nýsköpun því hún mun spila stóra rullu í þessu líka.