153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[12:00]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Baráttan um þverrandi auðlindir fer harðnandi. Atgangurinn verður sífellt grimmúðlegri og miskunnarlausari eins og við sjáum í vaxandi óstöðugleika og stríðsátökum, yfirgangi einstakra ríkja gagnvart öðrum og virðingarleysi fyrir landamærum, lífi og framtíð einstakra þjóða. Loftslagsbreytingar fela í sér ógnun við lýðræði og tækifæri fyrir einræðisöfl til að ná tökum á og halda í greip sinni þjóðum í krafti vaxandi neyðar og upplausnar, leiða jafnvel stórþjóðir sem búa við lýðræðislegt stjórnarfar til að verða sífellt sjálfsmiðaðri og einbeita sér að eigin hagsmunagæslu á kostnað samfélags þjóðanna. Við þetta bætast gríðarlegar sviptingar í landgæðum og möguleikum hópa fólks á að sjá sér farborða. Að óbreyttu mun loftslagsflóttafólki fjölga svo um munar á komandi áratugum vegna hækkunar hitastigs, veðurfarsöfga og afleiðinga þess fyrir uppskeru og lífsviðurværi á viðkvæmum stöðum. Um þessar mundir geisa verstu þurrkar í 40 ár í austurhluta Afríku og búa 25 milljónir manna nú þegar við sult vegna þeirra og er það mat sérfræðinga að kunn veðurfyrirbæri á svæðinu magnist upp vegna loftslagsbreytinga. Ljóst er að ef hlýnun eykst umfram 1,5° gráður verða vistkerfi jarðar og samfélög manna í enn alvarlegri hættu og þær breytingar sem farnar eru að gera vart við sig eru aðeins toppurinn á bráðnandi ísjakanum.

Virðulegi forseti. Umskipti í græna orkugjafa, en um leið verndun viðkvæmra vistkerfa sem eru undirstaða lífs á jörðinni, eru lykilatriði og grunnurinn að orkuöryggi og orkusjálfstæði sem nú er mikið rætt um, ekki síst vegna afleiðinga stríðsátaka í Evrópu. Við þurfum líka að breyta lífsháttum okkar og framleiðslukerfum til að minnka losun og lágmarka orkunotkun í leið að sjálfbærara samfélagi. Stríðsátök og loftslagsbreytingar ógna nú í sameiningu fæðuöryggi í heiminum. Áhrif átakanna í Úkraínu minna okkur á að við þurfum með styrk og visku að stuðla að friði og samstöðu þjóða heims til að takast á í sameiningu við þær ógnir sem steðja að jörðinni vegna loftslagsbreytinga.