153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd við þetta orðalag, að ríkisstjórnin skuldi einhverja hluti. Við erum með lög sem kveða á um það hvernig við ákveðum breytingar á örorkubótum frá einu ári til þess næsta og það er algerlega einstakt sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, að grípa inn í vegna verðbólgunnar á miðju ári. Í fyrra fórum við þá leið, undir lok árs, að bæta í fjárlög ársins 2022 vegna þess sem hafði vantað á árinu 2021 í ljósi þess að verðbólgan hafði þróast með öðrum hætti en opinberar hagspár sem stuðst var við gerðu ráð fyrir. En við gerum miklu betur núna sem ríkisstjórn, við komum inn á miðju ári og hækkum strax. Um það erum við að fjalla hér og síðan verður bætt við í fjárlögum næsta árs til að loka því sem á vantar miðað við spárnar eins og þær voru þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. (Forseti hringir.) Því er það ekki rétt túlkun hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin skuldi eitthvað, við erum að gera mun meira en lögin gera ráð fyrir.