153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið er að finna í þessu frumvarpi þar sem koma mun viðbótargreiðsla undir lok árs. Hún kemur til viðbótar þeirri greiðslu sem þegar er gert ráð fyrir í fjárlögum ársins. Ég held því fram að þessi ríkisstjórn hafi með aðgerðum sem gripið var til strax fyrir mitt þetta ár sýnt vilja sinn í verki til þess að koma til móts við þann hóp sem minnst hefur og þarf að treysta á almannatryggingar sér til framfærslu. Með hækkunum sem gert er ráð fyrir að verði í fjárlögum næsta árs þá erum við að gera þetta mjög myndarlega, sérstaklega í sögulegu ljósi.

Síðan er það með lögin og hvernig þau eru túlkuð. Við myndum t.d. aldrei leiðrétta til lækkunar ef verðbólga þess árs sem við höfum verið að horfa til yrði lægri en hækkanir á örorkubótum sem gengu út frá hagspá. Að því leyti verður að skoða þetta í samhengi lengri tíma.