153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hins vegar er það svo að í þessu frumvarpi er t.d. gert ráð fyrir því að heimild fáist upp 6 milljarða kr. til að kaupa hluta í glæsivillunni niðri við Austurbakka, í Landsbankanum — 6 milljarða kr. Önnur staðreynd er sú að ekki er verið að greiða búsetuskerðingardóminn upp með varasjóðnum. Það er verið að fara í þessa ríflega 4 milljarða sem urðu afgangs miðað við það sem áætlað var að setja í nýgengi örorku.

Staðreyndin er sú að kjaragliðnunin hefur vaxið ár frá ári, endalaust, og þeir sem eru fátækir hafa orðið fátækari. Hæstv. fjármálaráðherra hlýtur að sjá það sjálfur að þegar við erum að glíma við verðbólgu, verðbólguna sem ég var búin að ræða um við hæstv. fjármálaráðherra fyrir tveimur árum að allar forsendur væru fyrir að myndi skella á okkur — og var nú brosað í kampinn yfir því — þá er það þetta sem við erum að tala um: 1 milljarður og 600.000 kr. til að gjöra svo vel og rétta lægstu tekjutíundunum fyrir jólin, sem lepja dauðann úr skel í almannatryggingakerfinu. (Forseti hringir.) Þetta eru öryrkjar sem hafa ekkert annað að reiða sig á en almannatryggingar, ekki neitt. Og þetta eru fátækustu eldri borgararnir sem hafa heldur ekkert annað að reiða sig á en almannatryggingar.