153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi ráðstöfun til að mæta dómnum þá leggjum við ekki til auknar fjárheimildir þegar fjárheimildir eru til staðar til að greiða út bætur. Við sækjum einungis í varasjóðinn þegar þess gerist þörf og það dregst þá frá því sem ekki gengur út af eldri eða ónýttum fjárheimildum.

Varðandi Landsbankahúsið þá finnst mér það vera þessu máli algerlega óviðkomandi (Gripið fram í.) og færist einfaldlega á eignarhlið ríkissjóðs. Við erum ekki að kasta þeim peningum í höfnina. Við eignumst fasteign í staðinn fyrir fjárfestinguna og það er ekki hægt að bera þetta saman.

Síðan er það staðreynd að kaupmáttur bóta almannatrygginga hefur aukist mjög verulega undanfarin ár og á tímabili jókst kaupmáttur bóta meira en nokkur annar hlutur í samfélaginu, þ.e. í framfærslutekjum. (Forseti hringir.) Það var m.a. þess vegna sem ég lagði áherslu á að lækka skatta mest fyrir þá hópa sem voru í kringum 315.000–350.000 kr. (Forseti hringir.) Þegar við vorum að tryggja þá skattalækkun þá fannst mönnum það allt of lítið, en nú standa menn upp hér og biðja um fjárhæðir sem eru jafnvel lægri og segja að þær skipti öllu máli. (Gripið fram í.)

(Forseti (DME): Forseti biður hv. þingmenn að nota ræðupúltið til að koma athugasemdum sínum á framfæri.)