153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stóra myndin er sú að það munar í kringum 160 milljörðum hvað við þurftum að taka minna af lánum á þessu ári en við gerðum áður ráð fyrir. Það eitt og sér er miklu stærri tala en eftirstandandi hlutur í Íslandsbanka. Þetta eru góðu fréttirnar í þessum fjárauka og útkomunni árið 2022. Jafnvel þótt við þurfum að gjaldfæra samkvæmt þessum staðli þessa verðbótafærslu sem vaxtagjöld á árinu 2002 er það samt sem áður þannig að skuldahlutföll ríkissjóðs lækka og eru lækkandi þrátt fyrir hallarekstur, sem eru frábær tíðindi, og við erum með mun betri skuldahlutföll í lok árs en á horfðist.

Varðandi bankann: Það mun á endanum ráðast af því hver meirihlutavilji á þinginu verður. Við skulum taka eitt skref í einu og spyrja að leikslokum. Næst fáum við skýrslu ríkisendurskoðanda, það eru einhverjir dagar í það skilst mér. Í framhaldi af því finnst mér rétt að taka næstu skref. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að losa um eftirstandandi eignarhlut í Íslandsbanka, alveg tvímælalaust, en það er ekki hægt að gera það við hvaða aðstæður sem er. Það þurfa að vera hagstæð skilyrði (Forseti hringir.) til að losa um hlutinn.