153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

sjúkratryggingar.

132. mál
[15:25]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar en frumvarpið snýst um endurgreiðslu kostnaðar. Lögin um sjúkratryggingar eru frá árinu 2008. Þetta er í fjórða sinn sem mælt er fyrir þessu máli af hálfu Viðreisnar en við höfum lagt það fimm sinnum fram. Fyrsti flutningsmaður þessa máls er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sem hefur verið framsögumaður málsins til þessa en ég tek það verkefni að mér í fjarveru hv. þingmanns.

Málið hefur sem sagt ekki fengið framgang innan þingsins til þessa enda virðist það ganga þvert á stefnu ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Þetta felur í sér að hægt verði að grynnka á biðlistum, að aðgerðir á borð við mjaðma- og liðskiptaaðgerðir eða efnaskiptaaðgerðir verði gerðar hér heima þannig að við getum ýtt fólki út af biðlistum með jákvæðum hætti og aukið lífsgæði þess verulega. Það er eins og við vitum öll þjóðhagslega hagkvæmt fyrir ríkið og fyrir þann fjölda fólks sem bíður eftir slíkum aðgerðum. Þetta snýst um að gera fólki, sem beðið hefur í óviðunandi langan tíma á biðlistum hér og á þar með rétt á að sækja þjónustu erlendis, kleift að sækja þjónustuna til fagfólks hér á landi ef það vill það frekar, þó svo að samningur ríkisins við viðkomandi fagaðila sé ekki fyrir hendi en að uppfylltum öllum öðrum skilyrðum sem viðkomandi fagaðilar þurfa að uppfylla og eru gerð til heilbrigðisstarfsfólks.

Hér hefur hnífurinn staðið í kúnni. Stjórnvöld hafa sent fólk til útlanda í aðgerðir með tilheyrandi kostnaði, áhættu og óþægindum í stað þess að leyfa fólki að sækja þjónustuna hér heima. Fyrirstaðan er að sögn stjórnvalda að þau geta ekki leyft það af því að stjórnvöld hafa ekki samið við fagaðila hér heima. Til að því sé haldið til haga þá snýst þetta um greiðsluþátttöku stjórnvalda því stjórnvöld geta auðvitað ekki bannað fólki að sækja þjónustuna hér á landi, sem betur fer, að öðrum skilyrðum uppfylltum heldur neitað að taka þátt í kostnaði þó svo að um sjúkratryggða einstaklinga, skattgreiðendur, sé að ræða. Til að setja málið í það alvarlega samhengi sem það á heima í þá er líka biðlisti eftir aðgerðum hjá þessu fagfólki sem ekki hefur fengið samning við stjórnvöld. Slíkur er fjöldi sjúkratryggða einstaklinga hér á landi sem ákveður tilneyddur að greiða úr eigin vasa fyrir þessar aðgerðir þó svo að þeir hafi fulla sjúkratryggingu og hafi greitt skatt jafnvel alla sína ævi, eigi rétt á þessu samkvæmt lögum, en fær ekki þessa þjónusta vegna skorts á samningi við viðkomandi aðila.

Það er því miður svo að flokkarnir í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsókn, hafa ekki viljað ljá máls á þessu og hafa m.a. fellt tillögur okkar í Viðreisn í tengslum við vinnslu fjárlaga síðasta árs til að koma til móts við þennan hóp. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að því er virðist vera, stefna ríkisstjórnarinnar að semja ekki við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk, í þessu tilfelli fólk sem getur komið til móts við sjúklinga sem glíma við þennan sársauka. Oftast er verið að skipta um mjaðmakúlur, mjaðmaliði eða hnjáliði og nú eru efnaskiptaaðgerðir sem áður voru kallaðar offituaðgerðir orðnar mjög margar líka. Við sjáum svo að biðlistar eru að lengjast annars staðar í kerfinu, t.d. eftir sálfræðiþjónustu, en það er í sjálfu sér önnur saga.

Eins vel og heilbrigðisstarfsfólkinu okkar tókst að bregðast við kórónufaraldrinum sem hér herjaði, ekki síst með ævintýralegu álagi, þá er það svo að faraldurinn dró fram ákveðna veikleika heilbrigðiskerfisins, veikleika sem lúta að mönnun á sjúkrahúsum, mönnun innan heilbrigðisgeirans og plássleysi. Það er með öðrum orðum erfitt fyrir hið opinbera, fyrir ríkisreknu stofnanirnar, að sinna grunnþjónustunni almennilega. Það er einfaldlega þannig að þetta ríkisrekna kerfi er þungt í vöfum, e.t.v. þarf það að vera það að einhverju leyti, þetta er flókin og þung þjónusta sem þar er verið að sinna. Það er fyrst og fremst skortur á mannafla og plássleysi sem hefur leitt til þess að erfitt er að taka á biðlistunum, ekki síst þegar þessi tregða er innbyggð í kerfið og ýtt undir hana af hálfu stjórnvalda sem vilja ekki leita til sjálfstætt starfandi aðila hér á landi. Það virðist bara ekki mega þó að það sé til heilla fyrir allan almenning og ekki síst fyrir þá sem eru á biðlistunum. Það er einfaldlega þannig að það er nauðsynlegt að líta til eininga sem eru fyrir utan ríkisrekna kerfið til að mæta þeim biðlistavanda sem hefur aukist á síðastliðnum árum. Á þetta benda sífellt fleiri einstaklingar innan ríkisrekna kerfisins, líka innan okkar stóra sjúkrahúss sem er að sligast undan álagi. Sérfræðingar sem koma frá heilbrigðisstofnunum utan af landi sjá þetta sem einföldustu leiðina til að mæta þörfum fólks og þetta frumvarp er einfaldlega liður í því.

Það er heldur ekki ásættanleg ráðstöfun opinbers fjár að senda einstaklinga, sem hafa verið á biðlistum og brutt verkjatöflur á meðan þeir bíða, í mjaðma- og liðskiptaaðgerðir eða efnaskiptaaðgerðir til útlanda í staðinn fyrir að semja við sjálfstætt starfandi aðila hér heima sem gera nákvæmlega sömu aðgerðir. Það sem meira er, það eru stundum sömu læknarnir sem gera aðgerðir á einkaklíník hér heima en það má ekki semja við hana af því að það samræmist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar. Þessir aðilar fara með sjúklingunum út og framkvæma aðgerðir á einkaklíník erlendis og það er töluvert dýrara fyrir hvern einstakling. Það hefur verið sýnt fram á, m.a. með svörum við fyrirspurnum héðan úr þinginu, að það er mun dýrara að fara þá leið en að sinna sjúklingunum hér heima. Þegar þetta er tekið saman þá er niðurstaðan auðvitað sú að núverandi staða nær ekki nokkurri átt.

Þetta frumvarp lýtur að því að setja þarfir sjúklinga í forgang, stytta biðlista og auka lífsgæði fólks. Það er erfitt að átta sig á því hvernig þetta er ekki forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Það er tiltölulega einfalt í framkvæmd að leyfa Sjúkratryggingum Íslands að semja við sjálfstætt starfandi aðila, svo lengi sem þeir uppfylla skilyrði sem gerð eru til þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu hér á landi um færni og annað slíkt.

Frú forseti. Það er svolítið snúið að halda þessa framsöguræðu aftur og aftur, ár eftir ár, en staðan er sú að rándýrar stólahrókeringar við ríkisstjórnarborðið eftir síðustu kosningar virðast litlu sem engu breyta. Enn og aftur leggur Viðreisn þetta mál fram til að undirstrika að það eru til lausnir sem ganga langt í því að leysa biðlistavandann, a.m.k. í ákveðnum tegundum aðgerða. Sú undarlega staða er uppi að Sjúkratryggingar Íslands telja sér ekki heimilt að greiða kostnað við þessar aðgerðir á Íslandi. Pólitísku skilaboðin eru þau að stofnunin fær ekki heimild til þess þrátt fyrir að þær séu framkvæmdar af aðilum sem uppfylla öll lagaskilyrði og að verið sé að framkvæma þessar aðgerðir. Það er bara ekkert greitt af stjórnvöldum þrátt fyrir að um sé að ræða sjúkratryggða einstaklinga. Fólk greiðir þetta úr eigin vasa. Það eru hin pólitísku skilaboð sem ríkisstjórnin sendir frá sér.

Eftir að Viðreisn lagði málið síðast fyrir síðasta vetur lagði ég inn skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um útvistun aðgerða til útlanda vegna of langs biðtíma hér á landi. Svör við sumum þeirra spurninga sem ég lagði fram bárust í sumar. Þar kemur fram að frá árinu 2017 hafa íslensk stjórnvöld greitt tæplega 400 millj. kr. fyrir þessar aðgerðir erlendis. Það skiptir auðvitað máli hvernig stjórnvöld ráðstafa fjármununum okkar, ekki síst í heilbrigðiskerfinu þar sem er viðvarandi áskorun að eftirspurn eftir þjónustu er alltaf meiri en hægt er að anna, m.a. af peningaástæðum. Þessar aðgerðir þarf einmitt ekki að framkvæma erlendis heldur eru allar aðstæður fyrir hendi hér á landi, á ódýrari og hagkvæmari máta, fyrir utan hvað það er ólíkt þægilegra fyrir þá einstaklinga sem um ræðir að geta sótt þjónustuna hér og hvað það er einfaldara ef eitthvað fer úrskeiðis, sama hvaða ástæður það eru hér á landi, að þurfa ekki að leita réttar síns eða fá einhverjar úrbætur, ef til þess kæmi, hjá heilbrigðisstofum erlendis. Það er ekki þannig að þeir rúmlega 500 einstaklingar sem hér um ræðir hafi óskað eftir því að vera sérstaklega fluttir úr landi, jafnvel við erfiðar aðstæður og í erfiðar aðgerðir. Þeir fá einfaldlega ekki að leita til sérfræðings hér á landi nema að greiða úr eigin vasa.

Mér þykir þetta svolítið stórt mál, meðferð opinbers fjár, meðferð peninga skattgreiðenda. Ég spurði líka ráðherra hvernig greiðslur upp á 400 millj. kr. frá Sjúkratryggingum Íslands í þessar aðgerðir, hvernig þær samræmdust verðskrá í landi viðkomandi þjónustuveitanda og hvernig það samræmdist þá þeim greiðslum sem hér eru, hver kostnaðurinn er inni á ríkisreknum sjúkrahúsum hér þar sem verið er að framkvæma þessar aðgerðir. Svar heilbrigðisráðherra var að Sjúkratryggingar Íslands hefðu ekki þær upplýsingar.

Eftir stendur þá ósvarað: Hvernig er verðið ákveðið sem Sjúkratryggingar Íslands borga fyrir þessar aðgerðir erlendis? Er eitthvert útboð sem íslensku sérfræðingarnir fá ekki að taka þátt í eða eru kannski íslenskir sérfræðingar sem taka þátt í slíku útboði svo lengi sem þeir lofa að framkvæma aðgerðirnar ekki á Íslandi heldur í útlöndum? Er einhver önnur leið farin? Hvernig er verðið ákvarðað? Hvernig er leitað samninga um verð? Þá verður að ríkja gegnsæi um þetta. Það er þess vegna sem ég spurði aftur þegar þing kom saman í haust, fylgdi þessum svörum eða svaraleysi eftir með framhaldsfyrirspurnum og spurði m.a. í ljósi þess að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki upplýsingar um verðskrá milli opinberra aðila í öðrum löndum og þjónustuveitenda, samanber svar við fyrrnefndri fyrirspurn minni: Hvernig er verðið sem Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir hinar útvistuðu aðgerðir erlendis ákveðið? Svo spurði ég um fleira sem mér finnst þurfa að ríkja gegnsæi um, eins og: Hversu margir eru þessir erlendu þjónustuveitendur? Í hvaða löndum eru þeir? Og kannski síðast en ekki síst: Hvernig eru þeir valdir? Hver er ástæða þess að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki heimild til greiðsluþátttöku hjá þjónustuveitendum innan lands vegna umræddra aðgerða, aðeins utan lands? Frestur til svara er útrunninn. Svar hefur ekki borist en það hefur komið beiðni um framlengingu sem Alþingi hefur veitt samkvæmt hefð. Ég geri ráð fyrir svörum á allra næstu dögum vegna þess að ég ætla mér að halda áfram að ganga út frá því að þessar upplýsingar séu til innan ráðuneytisins eða annarra stofnana þess eins og Sjúkratrygginga. Það er eiginlega saga til næsta bæjar ef svo er ekki.

Mig langar til að biðja fólk að hafa það hugfast að það eru ýmsir aðilar sem geta vel veitt skilgreinda opinbera þjónustu og það er ekki verið að tala um það hér að fólk borgi sig fram fyrir í kerfinu. Það er verið að tala um skilgreinda þjónustu, verkferla og markmið og það er alveg skýrt hvað hver aðgerð kostar. Markmiðið er einfaldlega hér heima, nota bene, að fólk fái lausn sinna mála, fái þjónustu þegar það þarf á því að halda. Við erum ekki með þessu máli að ógna jöfnum aðgangi fólks að heilbrigðisþjónustu með því að viðurkenna að það eru fleiri en ríkið sem geta sinnt henni. Það er eiginlega akkúrat þveröfugt. Við viljum tryggja að allir sem hafa beðið of lengi á biðlistum samkvæmt evrópskum viðmiðum eigi þess kost að fá úrbætur annars staðar hér á landi ef þeir kjósa án þess að þurfa að borga úr eigin vasa, að málinu sé ekki stillt þannig upp, þegar fólk á rétt á að leita annað af því að hin evrópsku viðmið hafa verið brotin, að þá sé það aðgerð hér á landi ef þú borgar sjálfur eða aðgerð í útlöndum og íslenska ríkið borgar. Þessu viljum við fá breytt. Um þetta snýst málið.

Til að útskýra þessi evrópsku viðmið sem ég nefni þá er sjúkratryggðum einstaklingi heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki evrópska efnahagssvæðisins hafi biðin eftir þjónustu hér heima farið yfir tilskilin tímamörk og þar eru tímamörkin eilítið mismunandi eftir því hvers lags aðgerðir er um að ræða. Staðreyndin er sú að ef einhverri ríkisstjórn í sögu Íslands er að takast að koma á fót tvöföldu heilbrigðiskerfi þá er það þessari ríkisstjórn. Það er einfaldlega þannig, það er eiginlega ekki hægt að tala lengur um að það muni verða þannig. Staðan er sú að það er einfaldlega biðlisti, töluvert styttri en sá sem er í ríkisrekna kerfinu, en það er biðlisti fólks hjá einkaaðilum eftir þessum aðgerðum þar sem fólk borgar úr eigin vasa af því að það er þrátt fyrir allt ódýrara en sá atvinnumissir og þau skertu lífsgæði sem það kostar fólk sem oft er komið á miðjan aldur að bíða eftir þessari þjónustu. Það er allt lagt undir til að bæta úr stöðunni og það er ekki í lagi að það eina sem stendur í vegi fyrir því að sjúkratryggðir einstaklingar fái réttlátan stuðning frá heilbrigðiskerfinu sé pólitísk þvermóðska. Þetta er það sem við höfðum í huga þegar við lögðum þetta mál fram fyrir fjórum, fimm árum fyrst. Þetta á því miður enn þá við. Við viljum taka utan um fólkið hvar sem það er á biðlistum og fá alla þá sérfræðinga sem í boði eru hér á landi, starfandi hjá ríkisreknum heilbrigðisstofnunum eða einkareknum, til þess að aðstoða við að leysa úr vanda þessa fólks. Það er þannig sem heilbrigðiskerfið okkar á að virka og þetta frumvarp er gott skref í þá átt.