153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

sjúkratryggingar.

132. mál
[15:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla bara að byrja á því, svo það sé hafið yfir allan vafa, þó að mér finnist ég reyndar hafa komið því til skila, að ég er sannfærð um að það er ekki nokkur hér á þingi sem talar fyrir því að heilbrigðiskerfið okkar sé einkavætt, að við förum frá þeirri stefnu að þeir sem hér lifa og starfa séu sjúkratryggðir og eigi rétt á sömu þjónustu. Ef ég man rétt þá er þetta fyrsta setningin í okkar ágætu lögum um heilbrigðisþjónustu og frá henni verður ekki vikið.

Verði þetta frumvarp að lögum mun það heldur ekki snúast um að einstaklingur sem þarf að fara í liðskipti geti bara ákveðið að fara beint á einkarekna stofu og fái það greitt úr sjóðum. Það er þannig að hann fer fyrst í gegnum kerfið eins og nú er. Ef biðin er komin yfir Evrópuviðmiðin á hann rétt á að fara á annan stað, hvort sem það er erlendis eða hjá aðilum utan ríkisrekna kerfisins okkar.

Nú veit ég að þeir Íslendingar sem fara erlendis, þola ekki biðina, eru ekki að borga úr eigin vasa, en ég veit ekki hvort kostnaðurinn er sá sami og hann er á spítlanum, því að þær upplýsingar höfum við ekki. Við göngum út frá því að það sama eigi við um slíka samninga, það verður ekkert greitt úr eigin vasa. Við erum að leggja þetta fram til að koma í veg fyrir, eins og staðan er núna, að sumir þurfa að borga úr eigin vasa. Við erum koma í veg fyrir það. Ég myndi bara gera þær kröfur til stjórnvalda að þannig væri gengið frá samningum.

En aftur að því hvernig þjónustuveitendur eru valdir, útboð eða ekki útboð. Ég veit að þegar fólk, sem er búið að bíða svo lengi að það getur ekki beðið lengur, og ætlar að nýta sér þetta örþrifaráð að fara erlendis, leitar til sjúkratrygginga fær það upplýsingar um einhverja aðila sem framkvæma aðgerðir erlendis. Þannig að einhvers staðar er þetta valið. Einhvers staðar er bent á einhvern. Einhver veit eitthvað. Við bíðum bara eftir svörunum,(Forseti hringir.) það gæti dýpkað þessa umræðu.