Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Eydís Ásbjörnsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að tala hér um vinkil á iðnnámi sem að mínu viti er allt of lítið talað um og það er uppbygging styttri námsbrauta í verk- og starfsnámi. Ég hef í mörg ár talað fyrir slíku verkefni og lagðar hafa verið fram tillögur á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi þess efnis. Tilgangurinn með styttri námsbrautum er að viðurkenna sérhæfingu í vissum verkþáttum innan iðngreina. Með því að auka framboð á lögbundnum styttri námsbrautum í starfsnámi er horft til getu og styrkleika einstaklinga, nám sem hægt er að aðlaga að einstaklingnum sjálfum í tengslum við atvinnulíf og innviði þess samfélags þar sem einstaklingurinn býr eða sækir sér nám. Ef slíkt nám verður að veruleika mun það án efa koma til móts við þá einstaklinga sem hafa hætt eða fallið úr framhaldsskólum eða hreinlega ekki treyst sér í skóla. Þessir einstaklingar hafa þá möguleika á að klára nám við sitt hæfi, fá það metið á vinnumarkaði og styrkja þannig stöðu sína. Það minnkar líkur á að félagslega kerfið þurfi að grípa þessa einstaklinga.

Við erum ekki að finna upp hjólið í þessum efnum. Þessar styttri námsbrautir í verk- og starfsnámi eru í boði víða, t.d. á Norðurlöndum. Framkvæmdin þarf að vera í samstarfi við Samtök atvinnulífsins, mennta- og barnamálaráðuneytið og aðra hagaðila til að móta námskrá fyrir brautirnar og tryggja fjármagn.

Herra forseti. Ég vil skora á hæstv. mennta- og barnamálaráðherra að skoða þessa leið af fullri alvöru til að koma á meiri uppbyggingu og fjölbreytni í starfs- og verknámi með styttri námsbrautum. Ég veit að Austurland er tilbúið að ryðja brautina.