Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á Íslandsbanka er skýr niðurstaða að hagkvæmni hafi ekki ráðið för. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að eignarhluturinn var ekki seldur á hæsta mögulega verði þótt Bankasýslan hafi í minnisblaði til ráðherra 20. janúar og kynningum fyrir þingnefndum Alþingis í aðdraganda sölunnar lagt mikla áherslu á meginreglu laga nr. 155/2012 um hagkvæmni.“

Á opnum fundi fjárlaganefndar í vor sagði Bankasýslan að svokölluð forgangsmeginregla væri það sem skipti höfuðmáli, að sækja hæsta verð trompaði allt í þessu ferli, en það var samt ekki niðurstaðan eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem er sagt:

„Því er ljóst að önnur sjónarmið voru látin ráða við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð og tillögu til ráðherra um endanlegt söluverð.“

Mig langar að rifja upp hvernig fyrsta útboðið fór. Í áliti mínu fyrir seinni söluna sagði ég að slík pólitík sem klúðrar sölu á almenningseign með svo stjarnfræðilegum hætti ætti ekki undir neinum kringumstæðum að fá að halda áfram. Þó að almennt séð geti það verið góð hugmynd að selja Íslandsbanka, meira að segja núna — sem sagt í vor — þótt það sé almennt góð hugmynd að losa um eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum þannig að ríkið eigi ekki tvo banka, þá skiptir máli hvernig slík sala fer fram. Það ætti að vera öllum augljóst að frumútboð Íslandsbanka klúðraðist algerlega. Frá sjónarhóli hins opinbera tapaði það 27 milljörðum í vasa þeirra sem gátu keypt í bankanum. Það var ekki kaupendunum að kenna heldur ráðherra. Álit mitt var að núverandi ráðherra eigi ekki að fá leyfi til að selja Íslandsbanka þar sem hann hefur ekki sýnt fram á að hann standi undir þeirri ábyrgð sem því fylgir.

Nú ætla stjórnvöld að kenna lögum og Bankasýslu um klúðrið og ætla að semja nýtt fyrirkomulag. En hvers vegna í ósköpunum ættum við að treysta fólki sem gat ekki einu sinni farið eftir gömlu lögunum til að búa til ný lög? Hvers vegna í ósköpunum ættum við, þegar núverandi stjórnvöld klúðra núverandi fyrirkomulagi, að treysta þeim til þess að búa til nýtt fyrirkomulag?