Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið. Auðvitað er það þannig að þó að við séum með eitthvert armslengdarsjónarmið þá þýðir það ekki að ráðherra beri ekki ábyrgð. Hann ber lagalega ábyrgð, hann ber siðferðilega ábyrgð og hann ber pólitíska ábyrgð. Fram hjá því komumst við bara nákvæmlega ekki neitt. Það að hæstv. fjármálaráðherra fari hér í einhverja loftfimleika um að hann væri nú kannski að meina eitthvað annað þá var það bara algjörlega kýrskýrt í ræðu hans að þetta var samjöfnuðurinn sem hann dró saman, stjórnarandstaðan væri svo málefnafátæk að hún væri nánast að gera það sama og væri reyndin ef samgönguráðherra væri dreginn til ábyrgðar fyrir eitthvert lögbrot. Þetta var einfaldlega ódýrt ræðutrix sem stenst enga skoðun og dregur mjög mikið úr bæði alvarleika skýrslunnar og alvarleika málsins.

Ég hef haldið því mjög skýrt til haga, bæði í ræðu í þinginu og í fjölmiðlum, að við getum ekki bara látið hina lagalegu ábyrgð vera til umfjöllunar. Pólitíska ábyrgðin skiptir gríðarlega miklu máli. Alveg eins og ég rakti í ræðu minni áðan þá ber ég fullt traust til Ríkisendurskoðunar en ég bendi á að Ríkisendurskoðun hefur áður skoðað bankasölu í tvígang og gefið heilbrigðisvottorð. Rannsóknarnefnd hafði víðtækari úrræði. Það komu fram nýjar upplýsingar sem rannsóknarnefndin gat unnið með og Ríkisendurskoðun var auðvitað ekki um að kenna þar. Það eru bara ákveðin takmörk og við vitum það öll og verðum að viðurkenna það hér í umræðunni að víðtækari heimildir eru auðvitað betri en takmarkaðar. Í því felst ekkert vantraust á Ríkisendurskoðun. Málið er bara það að þegar kemur að hinni pólitísku ábyrgð þá vilja menn ekki kannast við hana. Menn vilja bara geta flækt málin með því að tala um lög og lagalega ábyrgð. Málið er ekki svona einfalt. Við getum ekki slegið því föstu með tilliti til forsögunnar og jafnframt erum við ekki (Forseti hringir.) að gera lítið úr ríkisendurskoðanda með því að eitthvað hafi farið fram hjá honum við rannsókn málsins þegar ríkisendurskoðandi hefur það hlutverk með höndum sem margoft er búið að lýsa í ræðum.