Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:09]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni var tíðrætt um armslengd og ábyrgð ráðherra, að þetta væri allt svo flókið. Ég tel það ekki vera flókið á nokkurn einasta hátt. Þessi frasi um armslengdina — ég hef unnið með þetta hugtak ansi lengi og ráðherra hefur tekið sér það í munn og annað slíkt. Förum aðeins yfir þetta. Fjármálaráðherra fær heimild í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum til að selja Íslandsbanka. Fjármálaráðherra fær heimild Alþingis í fjárlögum til að selja Íslandsbanka. Spurningin er þessi: Hver er að selja Íslandsbanka ef ekki fjármálaráðherra? Hver ber ábyrgð á sölunni ef ekki fjármálaráðherra? Fjármálaráðherra ber ábyrgð á Bankasýslunni og ber að skipa stjórn Bankasýslunnar og forstjóra. Hann samþykkir stefnu og samþykktir Bankasýslunnar. Það er alveg kristaltært að fjármálaráðherra og enginn annar ber ábyrgð á sölu á hlut í Íslandsbanka, 22,5%, og hann seldi pabba sínum hlut sama hvernig horft er á það. Það er klúður í framkvæmd. (Forseti hringir.) Spurningin er þessi: Hver ber ábyrgð á sölunni á Íslandsbanka annar en fjármálaráðherra?