Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ef þetta er svona flókið þá erum við að ræða um hver beri ábyrgð á sölu Íslandsbanka. Ég spurði hv. þingmann af því og ég spyr aftur: Hver ber ábyrgð á sölunni á Íslandsbanka? Ég segi að fjármálaráðherra beri ábyrgð á sölunni á Íslandsbanka og enginn annar. Ég spyr aftur: Hver ber ábyrgð á sölunni á Íslandsbanka? Ef ekki fjármálaráðherra, hver þá?

Þetta er alveg skýrt. Við skulum fara yfir lögin um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum frá 2012. Þau kveða einfaldlega á um ábyrgð fjármálaráðherra. Í 2. gr., um ákvörðun um sölumeðferð, getur hann fallist á tillögu Bankasýslunnar. Það var hringt í hann um kvöldið og sendur tölvupóstur. Þar segir líka að ráðherra skuli jafnframt leita umsagnar Seðlabanka Íslands og skila greinargerð til þingsins. Í greinargerðinni skuli m.a. koma fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað að öðru leyti. Þetta er algjörlega skýrt. Það er ákvörðun ráðherrans samkvæmt 2. gr. að selja bankann og það virðist vera talað um að ábyrgðin liggi annars staðar. Hvar er ábyrgðin ef ekki hjá fjármálaráðherra?