Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:04]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég ætla að leyfa mér að efast um að þær aðgerðir sem stjórnarmeirihlutinn hefur ráðist í til að endurvekja traustið með þessum hætti verði til þess að efla traust. Þegar traust ríkir ekki á framkvæmd einhverra tiltekinna stjórnvalda og mikil gagnrýni er á það ferli sem sömu stjórnvöld settu af stað, þá liggur það alveg í hlutarins eðli að þegar stjórnmálamenn og hæstv. ráðherrar, sem tóku ákvarðanirnar, kannast ekki við ábyrgð sína í málinu þá býr það ekki til einhverja trauststilfinningu úti í samfélaginu. Ég held að það verði óhjákvæmilega niðurstaðan af þessu.

Það leiðir okkur síðan að seinna atriðinu sem hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni. Það er að þeir peningar sem fengust í fyrri söluferlum, þ.e. því söluferli sem er núna undir og fyrri sölunni, nýttust vel til uppbyggingu innviða. Verðmæti hlutarins sem ríkið á núna í Íslandsbanka er komið yfir 100 milljarða. Þennan pening er ekki hægt að leysa út, ef svo má að orði komast, vegna þess að ekki ríkir traust og það verður ekki hægt að fara í það að selja í banka.

Ég ætla að leyfa mér að efast um það og fullyrði hér að það verður engin stemning fyrir því í samfélaginu að fara í annað einkavæðingarferli fyrr en búið er að taka almennilega til í þessum málum og ég hugsa að það verði ekki endilega almenn stemning fyrir því í baklandi a.m.k. tveggja stjórnarflokkanna, þótt ég þykist nú vita að Sjálfstæðisflokkurinn reyni engu að síður að keyra það með einhverjum hætti í gegn. Ef menn ætla að líta á þennan pening sem hefur fengist fyrir eignarhlutinn hingað til sem einhverja glæsieinkunn í þeirri vegferð að hafa byggt upp innviði, ættu menn þá ekki líka að kannast við að hafa glatað gullnu tækifæri til þess að leysa út rúmlega 100 milljarða á þessu ári eins og verðmæti hlutarins er orðið — og það átti að klára söluna á þessu ári? (Forseti hringir.) Er það ekki glatað tækifæri til þess að byggja upp innviði og ganga í þau mál öll?