153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

ástand vegakerfisins.

[15:30]
Horfa

Högni Elfar Gylfason (M):

Virðulegur forseti. Undanfarin misseri hafa umræður um slæmt ástand vega um allt land verið háværar. Einhvern veginn virðist alltaf vera fyrsta hugsun ráðamanna að skera niður í vegaframkvæmdum þegar eitthvað bjátar á í hagkerfinu. Í kreppuástandi er hætt að viðhalda vegakerfinu. Í þenslu er vegagerð skorin niður og í eðlilegu ástandi er allt annað talið mikilvægara en vegakerfið. Bíleigendur greiða háar fjárhæðir í skatta til að komast á milli staða og hafa þeir bara aukist undanfarin ár. Það ætti að vera sjálfsögð krafa að vegum sé viðhaldið og að unnið sé að því að koma bundnu slitlagi á ónýta malarvegi sem eru um allt land. Vondir tengivegir og ónýtir sveitavegir bera því miður ekki vitni um mikinn áhuga ráðamanna á málefninu. Skemmdir bílar, slysahætta, aukinn ferðatími, börn í skólabílum — þessi listi getur verið miklu lengri.

Mig langar að spyrja hæstv. innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, eftirfarandi spurninga: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að hraðað verði ásetningu bundins slitlags á tengivegi og aðra fáfarnari vegi í dreifbýli? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að farið verði í bráðnauðsynlega endurnýjun hættulegra vega með gömlu bundnu slitlagi, vega sem eru svo missignir að helst er hægt að bera akstur eftir þeim saman við akstur á mótorkrossbraut?