Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:44]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Einangrun hjá ungu fólki er vaxandi vandamál, bæði vegna þess að samfélagsgerðin okkar hefur breyst og við högum okkur öðruvísi en við gerðum fyrir 20, 30 árum síðan. Það að verða einangraður getur verið mjög alvarlegt og verið mjög langvarandi og erfitt að koma sér út úr því. Það getur skapað mikinn félagskvíða og annað. Þannig að það er flókið að koma fólki út á vinnumarkaðinn sem hefur kannski verið einangrað eða verið mjög veikt til lengri tíma og það eru mjög margir fagaðilar sem þurfa stundum að koma að því, ekki alltaf en stundum. Það er mikilvægt þegar rætt er um að koma fólki, sérstaklega af því að við vorum að ræða um unga fólkið, út á vinnumarkaðinn að horfa til þess hvaða áhrif það hefur á einstakling að verða mjög veikur og vera með einhvern geðsjúkdóm og vera ungur og kannski einangraður. Það þarf að huga að svo mörgu. Það er ekkert einfalt mál að koma fólki, sem hefur kannski verið einangrað í þrjú ár eða lengur, út á vinnumarkaðinn. Mér finnst bara mjög gott þetta frumvarp til laga og ég fagna því og ég vil líka hvetja hæstv. ráðherra til dáða í því að fara lengra eins og talað hefur verið um í dag. Öll kerfin þurfa að tala saman og það þarf að vera mjög skýrt að allir séu velkomnir á vinnumarkaðinn. Við þurfum einhvern veginn að gera hann og atvinnulífið þannig og leiða ríkið og vonandi sveitarfélögin og fleiri með góðu fordæmi til þess að fólk treysti sér og finnist það vera velkomið út á vinnumarkaðinn. Það þarf að vera hvati fyrir einstaklinga til að fara út á vinnumarkaðinn. Það þarf einnig að vera hvati fyrir fyrirtæki í einkarekstri og aðra til að fá einstaklinga til sín sem vilja t.d. vera í hlutastarfi, sem vilja vera í 20% starfi eða 40% starfi.

Það er mjög mikilvægt að samtalið og allt sem tengist þessu eigi sér stað. Við þurfum að huga að því hvernig við ætlum að framkvæma þetta og hvernig við ætlum að breyta þessari menningu sem er hér. Það hefur verið svolítið þannig að þegar maður skoðar atvinnuauglýsingar er verið auglýsa eftir fólki í 100% stöðugildi í flestum tilfellum. Það er lítið um auglýsingar á hlutastörfum. Það er eitthvað, vissulega, en allt of lítið. Það þarf einhver hugarfarsbreyting að eiga sér stað, eitthvert samtal, og það þarf að vera bara mjög skýrt að við komum ekki fólki út á vinnumarkaðinn ef við ætlumst til þess að einstaklingar fari í 100% störf, bara einn, tveir og bingó. Það sýnir sig nefnilega að ef maður gerir hlutina í litlum skrefum þá er líklegra að það gangi upp. Eins og ef maður ætlar sér að hlaupa maraþon þá byrjar maður væntanlega ekki á því að hlaupa maraþon. Maður þarf að æfa sig. Það er líka þannig með vinnumarkaðinn, það er nákvæmlega það sama. Þannig að að ætlast til þess að fólk fari út á vinnumarkaðinn í 100% starf er óraunhæft og það mun ekki ganga upp.

Ég hef heyrt hæstv. ráðherra tala um það, það er verið að tala um hlutastörf og það er bara mjög gott. En vonandi verður það þannig að það verður framboð og fólk verður velkomið út á vinnumarkaðinn, að það geti byrjað í 20% starfi og fari síðan í 40% starf án þess að missa lífeyrinn sinn eða hvernig sem það er. Þá þarf einhvern veginn að koma til móts við fólk þannig að það geti tekið þetta í litlum skrefum, ekki í maraþoni. Það er bara mjög mikilvægt að hafa það í huga.

Gerum alltaf ráð fyrir því að allir vilji vera á vinnumarkaði eða að hafa einhvers konar hlutverk úti í samfélaginu, í atvinnulífinu. Það eru ekki allir sem geta það, en gerum ráð fyrir því að fólk vilji það og bjóðum upp á það og verum með úrræði sem taka á móti allri flórunni af fólki. Því kassalagaðri sem úrræðin eru sem við erum með því ólíklegra er að við getum hjálpað einstaklingunum þar sem þeir eru. — Nei, þú fellur ekki inn í þetta úrræði, þú getur ekki verið hér. Bíddu nú við, hvar á ég þá að vera? — Við erum svolítið gjörn á að gera það í þessu samfélagi. Þannig að það þarf að hafa þetta fjölbreytt, hafa þetta sveigjanlegt og hjálpa einstaklingum á hvaða skeiði sem þeir eru í lífinu og hvar sem þeir eru og gera ráð fyrir því að þeir vilji vera einhvern veginn í atvinnulífinu, eitthvað á vinnumarkaði þótt það sé bara 10%, 20% starf. Það er bara þannig, eins og segir í 23. gr., mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna: „Allir hafa rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi.“ Til þess að við uppfyllum þetta þá þurfum við að breyta hugarfari og skipulagi í atvinnumálum á Íslandi vegna þess að réttur til atvinnu eru mannréttindi og við þurfum að standa vörð um þau.