153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:07]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni kærlega fyrir innleggið. Það er auðvitað fengur í því fyrir Alþingi Íslendinga að hafa hv. þingmann hér vegna sérþekkingar hans á tónlist og skapandi greinum og auðvitað þekkjum við líka öll frábæran tónlistarferil hv. þingmanns.

Það sem ég vildi aðeins koma inn á í fyrsta lagi er að við séum ekki að láta svæðaskiptingu hafa áhrif á endurgreiðslurnar vegna þess að það er ekki þannig í kvikmyndunum. Ég er að skoða það aðeins betur og það ætti mögulega að skoða það í nefndinni.

Í öðru lagi þá er það svo að það er gríðarlegt fagnaðarefni hvað vel hefur gengið að fá hingað til landsins kvikmyndaverkefni og um leið viljum við að sjálfsögðu hlúa að innlendri kvikmyndagerð og sjónvarpsþáttagerð. Draumurinn er auðvitað að Ísland verði miðstöð skapandi greina í Norður-Atlantshafinu og að við fáum listafólk, bæði frá Norður-Ameríku og þess vegna Suður-Ameríku og svo Evrópu, sem getur komið hingað og tekið upp tónlist og kvikmyndir. Í raun og veru er sú þekkingarsköpun og -öflun sem á sér stað ómetanleg og í anda þeirrar ríku bókmenntahefðar og þeirrar hefðar sem við höfum haft hér á landi. Við vorum miðstöð bókmennta á 13. og 14. öldinni og ég sé það fyrir mér að á 21. öldinni séum við miðstöð skapandi greina.