Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:16]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Með þessu máli erum við að stuðla að áframhaldandi uppgangi íslensks tónlistariðnaðar með því að framlengja gildistíma laganna og styðja þannig við innviði greinarinnar. Er það í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um nauðsyn þess að tryggja frekari stuðning við íslenskst tónlistarfólk. Auk þess er með frumvarpinu brugðist við annmörkum sem reynslan hefur leitt í ljós varðandi framkvæmd laganna og meginefni frumvarpsins er mjög gott.

Frá því að endurgreiðslukerfinu var komið á fót með setningu laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016, hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fyrirmynd kerfisins er sótt í endurgreiðslukerfi laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Þau lög áttu frá upphafi að vera tímabundin til ársins 2006. Gildistími þeirra hefur síðan verið framlengdur um sem nemur 16 árum. Kerfinu hefur því verið gefinn rúmur tími til þess að festast í sessi á Íslandi, enda getur tekið langan tíma fyrir slík ívilnandi stuðningskerfi að ná yfirlýstum markmiðum. Með sömu rökum og sú framlenging hefur grundvallast á og rakin voru í greinargerð frumvarpsins verður að teljast eðlilegt að framlengja gildistíma laga nr. 110/2016. Frumvarpið miðar að því að festa endurgreiðslukerfið frekar í sessi með framlengingu á gildistíma laganna, auk þess að leggja til breytingar sem eru til þess fallnar að gera kerfið skilvirkara og hámarka afköst þess. Er þetta í samræmi við áherslur hins opinbera á þessu sviði sem snúast um aukinn stuðning við íslenskt tónlistarfólk, auknar hagupplýsingar varðandi tónlistarútgáfu á Íslandi og áframhaldandi nýtingu verkefna eins og Record in Iceland.

Þetta er mikið fagnaðarefni. Við erum einnig að móta fyrstu opinberu stefnuna á sviði tónlistar á Íslandi og það hefur allt gerst á vakt Framsóknar í menningarmálaráðuneytinu. Það hefur mikil vinna verið sett í að kortleggja umhverfi tónlistar í landinu undanfarin misseri. Hér er um að ræða mikilvægt mál sem skiptir tónlistarlífið miklu máli. Hæstv. menningarmálaráðherra hefur lagt mikla áherslu á að styrkja alla umgjörð í kringum menningu og skapandi greinar. Þá hefur einnig verið boðuð sérstök áhersla á málefni tónlistar á þessu kjörtímabili.

Virðulegi forseti. Við erum að og við höfum metnað til að efla tónlistarlíf um allt land og bæta starfsumhverfi tónlistarfólks og styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðar hér á landi. Með nýrri löggjöf og stefnu verður umgjörð tónlistar styrkt verulega. Við erum einnig að sameina þrjá sjóði í einn og strax á næsta ári verða fjárframlög til tónlistar aukin um 150 millj. kr. til að framfylgja þessari nýju stefnu. Árið 2025 er stefnt að því að framlög til tónlistar verði 250 millj. kr. krónum hærri en þau eru í ár.

Við ætlum okkur að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess og máli skiptir að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Íslenskt tónlistarfólk hefur tekið virkan þátt í að móta daglegt líf okkar með verkum sínum. Ég er stolt af því að standa hér í dag og fá að taka þátt í þessari umræðu undir þessu máli og þá er ég þakklát fyrir þetta skref í þágu íslenskrar menningar. Ég er sannfærð um að þau skref sem tekin verða með þessari framlengingu, nýrri tónlistarstefnu og nýjum heildarlögum verði til að blása enn frekari vindi í segl íslenskrar tónlistar, stuðla að því að fleiri geti notið þess að starfa við tónlist í fullu starfi og auðga líf okkar enn frekar. Við erum stolt af íslenskri menningu og tónlist er risastór þáttur í menningunni okkar og hefur vakið heimsathygli. Við eigum að stíga þessi stöndugu skref því að þau skipta svo sannarlega máli.